Tinna Björt Guðjónsdóttir leikkona og sölu- og markaðsstjóri ljóstrar upp matarvenjum sínum og fleiri skemmtilegheitum fyrir matarvef mbl. Tinna Björt var nýlega að enda við að leika í erlendri bíómynd og er nýkomin aftur til starfa sem sölu- og markaðsstjóri eftir fæðingarorlof. Aðspurð segir Tinna Björt að matarvenjur sínar hafi breyst eftir að sonur hennar kom í heiminn, auk þess að fyrirkomulag vinnu geti haft áhrif á fastar matarvenjur.
„Ég er nýlega orðin móðir og matarvenjur hafa því breyst að einhverju leyti. Það er ekki alveg jafn mikill tími sem gefst til að snæða eða laga mat, en ég reyni að borða holla og fjölbreytta fæðu. Ég er að vinna með „allt er gott í hófi“. Þannig það er ekkert samviskubit hér á bæ þegar ég fæ mér bragðaref um helgar,“ segir Tinna sposk á svip.
Þegar Tinna er spurð um matarvenjur sínar, segist hún hafa spurt manninn sinn hvernig hann myndi lýsa þeim. „Ég spurði manninn minn og hann svaraði: „Þú heldur raunverulega að þú sért miklu hungraðri en þú ert, færð þér ávallt fullan disk af mat og klárar síðan bara ¼ .“
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég borða alltaf sama morgunmatinn, hafragraut og próteindrykk. Síðan fæ ég mér yfirleitt fyrsta kaffibollann í vinnunni. Ég á bráðfallegt bollastell frá ömmu minni sem ég held mikið upp á en um helgar dreg ég það oft fram og fæ mér kaffibolla og gjarnan eitthvað sætt með. Ég man svo vel eftir ömmu minni vera að drekka kaffi úr því.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Í millimál fæ ég mér oftast próteindrykk og banana, þægilegt og auðvelt að borða. En þegar ég er í tökum þá er þetta aðeins öðruvísi. Oft eru langir tökudagar í gangi og þá er maður kannski að ferðast á milli staða sem tekur tíma en ég reyni mitt besta að finna milliveginn en oft þarf maður bara að fá sér eitt stykki súkkulaði til að fá orku.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegismat?
„Það er dagamunur á því hvað ég fæ mér í hádeginu. Ef ég er á ferðinni þá finnst mér gott að grípa skál eða þeyting frá einum af þessum ágætu Skyrbörum. En það er líka voða gaman að kíkja í mathallirnar þegar tími gefst. Ávallt hægt að finna sér eitthvað gott að borða þar.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Það sem er alltaf til í ísskápnum er próteindrykkur, sódavatn, egg og ef tilefni er til, þá er til freyðivín.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég verð alltaf miklu meiri matarmanneskja á ferðalögum erlendis. Þá er ég duglegri að prófa mismunandi mat og veitingastaði. Ég hef t.a.m. ávallt fengið mjög góðan mat í Frakklandi, sama hvort það er á fínum veitingastað eða á kaffihúsum. París er frábær þegar kemur að mat og drykk.“
Hvaða hráefni viltu fá á pítsuna þína?
„Pítsa er uppáhalds maturinn minn. Stundum er ég í stuði fyrir góða margarítu en svo koma dagar sem mig langar í bragðsterka pítsu, til dæmis með döðlum, truffluolíu og pepperóní.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Fer dálítið eftir dagsforminu en ég held að ég segi kartöflur“
Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?
„Ég verð að viðurkenna að maðurinn minn eldar oftast kvöldmatinn og ég er bara mjög sátt við það. En ég baka inn á milli. Ég er kannski ekkert í neinum kökum en ég kann að laga mjög góðar pönnukökur. Ég var svo heppin að ég fékk pönnuna sem langamma mín átti. Þór sonur minn er of lítill fyrir pönnukökur en ég hlakka mikið til að baka pönnukökur fyrir hann síðar. Hann ætti að þekkja bragðið, ég borðaði mjög mikið af þeim þegar ég var ófrísk af honum,“ segir Tinna að lokum og hlær dátt.