Vilhelm Einarsson stofnandi Wilson‘s Pizza ætlar að opna nýjan stað á morgun eftir níu ára fjarveru. Staðurinn er staðsettur í Minigarðinum í Skútuvogi. Forsaga málsins er sú að þann 13. maí 2005 opnaði 20 ára bakarasonur pítsastað á Akureyri. Staðurinn gekk vel og árið 2013 hafði Vilhelm opnað fimm Wilsons's Pizza staði á höfuðborgarsvæðinu.
„Ég var ekki viss um að þetta væri góð hugmynd að fara aftur í að opna Wilson´s Pizza. En meðeigendur mínir í Minigarðinum voru alveg sannfærðir um að það væri tækifæri í að endurvekja Wilson‘s,“ segir Vilhelm og segist upplifa blendnar tilfinningar.
„Ég var ungur þegar ég stofnaði Wilson‘s, ekki nema 20 ára og fór alveg framúr mér í fjölgun staða sem varð staðnum að falli á sínum tíma. Um leið og ég elska þennan tíma, þá var þetta mjög erfiður tími að þurfa að loka stöðunum sem ég hafði gefið allt mitt og allan minn tíma,“ segir hann og játar að aðstæður í hans lífi séu allt aðrar í dag.
„Ég er reynslunni ríkari og veit mun betur hvað ég er að fara út í. Ég hef fengið virkilega skemmtileg viðbrögð hjá þeim sem hafa heyrt af þessum áformum og ekki laust við að það sé smá fiðringur í maganum,“ segir Vilhelm.