Brunaði kasólétt á sendiferðabíl og tókst að klessa bílinn

Hrafnhildur Hermannsdóttir markaðsstjóri hjá Eldum rétt hefur fylgt fyrirtækinu úr …
Hrafnhildur Hermannsdóttir markaðsstjóri hjá Eldum rétt hefur fylgt fyrirtækinu úr hlaði í áratug. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Eldum rétt fagnar 10 ára afmæli í ár og fyrirtækið hefur vaxið og stækkað ört á þessum tíu árum. Það má segja að það hafi orðið stökkbreyting á starfsemi frá því hún hófst og miða við pantanir má segja að tæplega þriðjungur þjóðarinnar hafi einhvern tíma prófað og pantað rétti hjá Eldum rétt.

Hrafnhildur Hermannsdóttir er markaðsstjóri fyrirtækisins og hefur fylgt því úr hlaði frá upphafi. Hrafnhildur er menntuð hjúkrunarfræðingur og með mikinn áhuga á hreyfingu og góðum mat. Hún talar stundum um að Eldum rétt sé eitt af börnunum hennar.

„Ég á þrjú börn ásamt hundinum Kviku sem er fullgildur fjölskyldumeðlimur. Svo er Eldum rétt dálítið eins og fimmta barnið sem ég sinni daglega,“ segir Hrafnhildur og hlær. „Í viðbót við hjúkrunarnámið hef ég svo aflað mér aukinnar þekkingar á sviði markaðsmála og stjórnunar á ýmsum námskeiðum og ráðstefnum. Ég hef gaman að tölfræði og gagnadrifinni markaðssetningu og það er svo sannarlega hægt að sökkva sér í þau fræði í mínu starfi.“

Fólk getur pantað matarpakka vikulega

Eldum rétt er þjónusta þar sem fólk getur pantað matarpakka vikulega og fengið þá heimsenda með einföldum eldunarleiðbeiningum og hráefnum í nákvæmu magni, svo ekkert fari til spillis. „Einnig er hægt að versla einstaka rétti frá Eldum rétt í verslunum Hagkaup. Eins og fram hefur komið verður Eldum rétt tíu ára í ár, sem er mikill áfangi og það er magnað hve hratt tíminn hefur liðið og margt gerst á þessum áratug. Eldum rétt var stofnað árið 2014 en hugmyndin kemur upprunalega frá Svíþjóð þar sem svipuð þjónusta hafði verið mjög vinsæl. Uppi voru vangaveltur um hvort svona þjónusta myndi ganga upp á íslenskum markaði, og hvort landsmenn væri tilbúnir til þess að skipuleggja sig og máltíðirnar sínar svona „langt“ fram í tímann. Það kom þó fljótlega í ljós að fyrirkomulagið hentaði fólki afar vel og var strax mikill áhugi fyrir Eldum rétt.“

Fólk á öllum aldri nýtir sé þjónustu Eldum rétt.
Fólk á öllum aldri nýtir sé þjónustu Eldum rétt. Ljósmynd/Jón Guðmundsson

Kasólétt að bruna á sendiferðabíl með sætar kartöflur

Aðspurð segir Hrafnhildur að reksturinn hafi þróast heilmikið og breyst á þessum áratug. „Eldum rétt hefur auðvitað tekið stökkbreytingu á þessum áratug sem hefur liðið, stækkað og þróast, umfangið er náttúrulega allt annað en það var hér áður fyrr. Fyrst voru þetta auðvitað bara nokkrir viðskiptavinir en í dag er hópurinn stór og sístækkandi, okkur reiknast svo til að tæplega þriðjungur þjóðarinnar hafi smakkað Eldum rétt máltíð sem er mögnuð tilhugsun.“

„Svo getur verið skondið að hugsa til baka hvernig við gerðum ýmsa hluti í byrjun, ég man til dæmis að einu sinni var ég kasólétt, að bruna á sendiferðabíl heim til fólks með sætar kartöflur sem hafði gleymst að setja í pakkana. Í öllum hamaganginum tókst mér að klessa bílinn og allt í steik. En maður getur bara lært af mistökunum og við vorum tiltölulega fljót að sjá hvað virkaði vel og hvað ekki,“ segir Hrafnhildur sposk á svip.

Koma í veg fyrir matarsóun hjá birgjum og neytendum

Hrafnhildur segir að það sem hafa hins vegar ekki breyst sé grunnhugmyndin um Eldum rétt; að fá fólk til að plana og panta matarpakkana sína með góðum fyrirvara. „Sem gerir það að verkum að við getum pantað nákvæmt magn frá okkar birgjum. Í byrjun voru margir birgjar sem skildu ekkert hvað við vorum að gera, það væri nú algjör vitleysa að ætla pakka mat í svo litlum einingum, en það voru sem betur fer nokkrir birgjar sem höfðu trú á okkur og við höfum unnið með þeim allar götur síðan,“ segir Hrafnhildur og bætir við: „Með því að panta nákvæmlega þau hráefni sem til þarf, komum við í veg fyrir ótrúlegt magn af matarsóun, bæði hjá birgjum og neytendum. Við erum virkilega stolt af þessari þróun og vera þannig partur af jákvæðari neysluvenjum hjá landsmönnum.

Mörgum finnst afar þægilegt að fá tilbúna matarpakka þar sem …
Mörgum finnst afar þægilegt að fá tilbúna matarpakka þar sem búið er setja allt saman fyrir máltíðina. Ljósmynd/Jón Guðmundsson

Barnvænu réttirnir alltaf vinsælastir

Er einhverjir réttir vinsælli en aðrir?

„Við höfum vissulega séð ákveðin matartrend í gegnum árin en barnvænu réttirnir eru auðvitað alltaf vinsælir, rétt eins og píturnar okkar og aðrir klassískir réttir. 

Á hvaða aldursbili er stærsti hópurinn sem nýtir sér þjónustu Eldum rétt?

„Fólk á öllum aldri nýtir sér Eldum rétt en stór hluti af hópnum er upptekið fjölskyldufólk sem vill spara tíma en samtímis bjóða fólkinu sínu upp á hollan og ferskan mat. Einnig er mikið af einstaklingum sem kaupa pakka hjá okkur. Fólk sem býr eitt setur það gjarnan fyrir sig að elda fyrir sig sjálft svo við höfum kappkostað við að bjóða upp á fjölbreytta matarpakka sem henta öllum týpum af heimilum.“

Óvænt að sjá hversu Eldum rétt verður að rútínu hjá mörgum

Hvað er það sem hefur komið þér mest á óvart í rekstrinum?

„Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hve mikið Eldum rétt myndi sveiflast með rútínu fólks, að það yrði einfaldlega partur af lífinu þeirra. Það var bæði óvænt en líka ótrúlega ánægjulegt að sjá að við vorum að hjálpa fólki að halda rútínu, að bjóða þeim ákveðin þægindi sem minnkar líka óþarfa stress í hversdagslífinu. Enda um leið og fólk prófar svona áskrift og finnur muninn, þá eru fáir sem snúa til baka,“ segir Hrafnhildur glaðbeitt.

Þegar Hrafnhildur er spurð hvort það sé eitthvað sem standa upp úr á þessum tímamótum sé hún stoltust af tveimur tilnefningum sem fyrirtækið hefur hlotið. „Eldum rétt er búið að vera mikið ævintýri, við eigum margar góðar minningar og allskonar upplifanir frá þessum tíma. Eitt af því sem ég er hvað stoltust af eru tvær tilnefningar um vörumerki ársins, sem og tilnefningu til markaðsfyrirtækis ársins 2022. Það var virkilega gaman að fá þær viðurkenningar. Að baki vörumerkis er svo margt og við leggjum mikið upp úr góðri þjónustu, ferskum hráefnum og fjölbreyttum mat til að mynda. Svo eru auðvitað allir okkar góðu viðskiptavinir sem spara okkur ekki hrósin og það var skemmtilegt og gefandi að vinna í afgreiðslunni á Nýbýlavegi fyrstu árin þegar fólk var að koma og sækja pakkana sína og dásömuðu okkur í leiðinni.“

Þurfti skyndilega að skipta um gír

Hrafnhildur kemur líka inn á það að Covid hafi verið algjör rússíbani. „Ég sem hafði hugsað mér að eiga loksins rólegt fæðingarorlof með þriðja barnið okkar en þurfti svo skyndilega að skipta um gír og mæta til vinnu. Vegna aðstæðna í samfélaginu seldist oft upp hjá okkur og við slóum met í fjölda pantana. En tímabilið var auðvitað krefjandi, við þurftum að vinna eftir vaktakerfi og það var erfitt að mega ekki hittast á vinnustaðnum. Erfiðasta var samt að maður hafði miklar áhyggjur af smitum í samfélaginu og hve margir voru að veikjast alvarlega o.s.frv.“

Heppnir áskrifendur geta unnið ferðavinning

Aðspurð segist Hrafnhildur horfa björtum augum á framtíðina. „Við höldum áfram að þróast, eflast, koma með fleiri spennandi og góðar uppskriftir og auðvitað koma enn þá fleirum á Eldum rétt vagninn. Vert er líka að minnast á það þótt ég sé ekki mikið fyrir að halda upp á mitt eigið afmæli, þá fögnum við alltaf afmæli Eldum rétt. Í tilefni af fyrsta áratugnum vildum við gleðja viðskiptavini okkar á eftirminnilegan hátt með því að bjóða þeim í frí, enda vitum við manna best hve hektískt hversdagslífið er. En fram til 8. maí geta fjórir heppnir áskrifendur unnið ferðavinning að verðmæti einnar milljónar króna hver og þurfa þannig hvorki að pæla í kvöldmatnum né sumarfríinu,“ segir Hrafnhildur að lokum með bros á vör.

Matarpakkarnir eru orðnir að rútínu hjá mörgum fólki.
Matarpakkarnir eru orðnir að rútínu hjá mörgum fólki. Ljósmynd/Jón Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert