Ferskt og brakandi sumar-tacos með sumarsalsa

Sumarlegt tacos með sumarsalsa.
Sumarlegt tacos með sumarsalsa. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Sumardagurinn fyrsti er handan við hornið, runninn er upp síðasti vetrardagur og þá hugsa allir um sumarlegar krásir. Í tilefni sumarsins er upplagt að bjóða upp á sumarlegt tacos með sumarsalsa. Berglind Hreiðars, matarbloggarinn vinsæli hjá Gotterí og gersemar, er með þessa frábæru uppskrift að sumarsalsa og taco með hakki sem nýtur ávallt vinsælda. Þessi réttur er ofur einfaldur, hollur og góður. Best er að útbúa sumarsalsa fyrst og geyma í kæli á meðan annað er undirbúið.

Sumar-tacos með hakki og sumarsalsa

Fyrir 4-5

  • 500 g nautahakk
  • 1 pk. taco-krydd
  • 12-15 harðar tostadas-skeljar/taco-skeljar
  • Rifinn cheddar-ostur eftir smekk
  • Sýrður rjómi eftir smekk
  • Sumarsalsa (sjá uppskrift hér að neðan)
  • Ferskt kóríander eftir smekk
  • Ólífuolía eftir þörfum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Steikið hakkið upp úr ólífuolíu og kryddið með taco-kryddi.
  3. Hitið skeljarnar og raðið eftirfarandi saman á skeljarnar: cheddar-osti, hakki, sumarsalsa, sýrðum rjóma og kóríander. 

Sumarsalsa

  • 2 lítil mangó (þroskuð)
  • 2 lítil avókadó (í poka)
  • Nokkur jarðarber
  • ½ rauðlaukur
  • ½ límóna (safinn)
  • 2 msk. saxað kóríander
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið mangó, avókadó og jarðarber í litla bita.
  2. Saxið rauðlaukinn smátt.
  3. Blandið öllu saman í skál og kreistið límónusafa yfir.
  4. Smakkið til með salti og pipar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert