Föstudagar eru pítsudagar hjá mörgum fjölskyldum og nú er komið að uppskrift matarvefsins fyrir föstudagspítsuna sem lesendur geta prófað og máta sig við og ekki síður þeir sem eiga pítsuofnana sem hafa verið að ryðja sér til rúms hérlendis. Að þessu sinni er það calzone eða hálfmáni eins og pítsan er nefnd á íslensku og kemur uppskriftin úr smiðju Árna Þorvarðarsonar bakara og fagstjóra við Hótel- og matvælaskólann. Árni hefur mikið dálæti á því að baka pítsur og deila uppskriftunum sínum með öðrum.
Calzone eða hálfmáni er tegund af ítalskri samanbrotinni pítsu sem er gerð með því að brjóta kringlótt eða ferhyrnd pítsudeig í tvennt og innsigla brúnirnar til að búa til vasa. Deigið er venjulega fyllt með ýmsum hráefnum eins og mozzarella osti, ricotta osti, tómatsósu og ýmsu kjöti og grænmeti.
Calzone er síðan bakaður þar til deigið er gullinbrúnt og fyllingin bráðin og soðin. Calzone er oft borinn fram með marinara sósu til að dýfa í.
Calzone eða hálfmáni
8 stk. kúlur (125 g)
- 581 g pítsahveiti
- 365 g vatn 26°C
- 17 g súrdeig(má sleppa)
- 5 g þurrger
- 17 g salt
- 17 g olía
Í hálfmánann
- Pítsasósa (sjá uppskrift fyrir neðan)
- Mozzarellaostur eftir smekk
- Sveppir, skornir í sneiðar, eftir smekk
- Skinka, skorin í bita, eftir smekk
- Fersk basilíka til skrauts
Aðferð:
- Vigtið saman hveiti, vatn, súr og ger. Setjið í hrærivélaskál með krók. Hrærið saman í 5 mínútur á 30% hraða.
- Eftir 5 mínútur bætið þið saltinu við og hrærið áfram í 5 mínútur í viðbót.
- Eftir aðrar 5 mínútur er olían sett saman við og deigið hrært í síðustu 5 mínúturnar.
- Eftir þetta hefur þú hrært deigið í samtals 15 mínútur.
- Leyfið deiginu að hvílast í 2 tíma í stofuhita.
- Vigtið deigið niður í 8 stykki 125 gramma kúlur og setjið í lokað box og í kæli í lágmarki 12 klukkustundir.
- Deigið er flatt út í hring með hveiti undir.
- Setjið pítsasósu á botninn til hálfs, mozzarellaost, skinku og sveppi eftir smekk.
- Brjótið hinn hluta deigsins yfir og klípið saman. Passa skal að sósan verði ekki á milli því þar mun hún opnast.
- Bakið í 400°C – 500°C heitum pítsaofni (viðar eða gas) í 120-180 sekúndur.
- Skreytið með pítsasósunni og ferskri basilíku að ofan.
Pítsasósa
- 3 stk. afhýddir tómatar
- 1 tsk. salt
- 15 fersk basilíkulauf/blöð
- Ólífuolía eftir smekk
Aðferð:
- Blandið öllu saman í matreiðsluvél og maukið. Kryddið til eftir smekk.