Samruni Theodóru og Omnom stórfengleg bragðupplifun

Súkkulaðigerðin Omnom tekur þátt í hönnunarmars í ár í samstarfi …
Súkkulaðigerðin Omnom tekur þátt í hönnunarmars í ár í samstarfi við Theodóru Alfreðsdóttur vöruhönnuð. Hún og Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður leiða krafta sína saman með stórkostlegri útkomu. mbl.is/Árni Sæberg

Súkkulaðigerðin Omnom tekur þátt í hönnunarmars í ár í samstarfi við Theodóru Alfreðsdóttur vöruhönnuð. Í tilefni þess hefur Omnom teymið með Kjartani Gíslasyni súkkulaðigerðarmanni í fararbroddi sett upp stórfenglega sýningu í samstarfi við Theodóru. Sýningin ber yfirskriftina Samruni sem er nafn með rentu og lyftir hisminu utan um kakóbaunina upp á verðugan stall.

Hvernig Theodóru og Kjartani tekst að láta krafta sýna flæða saman og temja súkkulaði að hinum ólíku formum er hrein undrun að sjá. Upphafið á þessu verkefni hófst fyrir liðlega tveimur árum og á sér rætur að rekja í mynstur á bakka sem Theodóra hannaði sem virkaði eins og það ætti heima ofan á súkkulaðiplötu.

Theodóra er búsett í London en er alltaf með annan fótinn hérna á Íslandi. Hún er með BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands frá árinu 2012 en flutti svo eftir það til Lundúna til þess að fara í meistaranám í Design Products, í Royal College of Art þar sem hún ílengdist svo að loknu námi. „Stór partur af verkefnum mínum eru gerð í samstarfi við aðra hönnuði eða fyrirtæki, en meðfram þeim kenni ég líka í Goldsmiths, University of London,“ segir Theodóra.

Uppgötva óvænta eiginleika efna

Aðspurð segir Theodóra að rannsóknir sínar og verk fjalli yfirleitt um þá sögu sem hlutir geta sagt okkur, hvernig þeir geta verið til vitnis um framleiðsluferlið sem þeir fóru í gegnum, sagt til um hvað gerðist milli vélar og verkfæris, handverksmanns og efnis með það að leiðarljósi að endurskoða gildi efnisheimsins í kring um okkur. „Þessi nálgun leiðir oft til uppgötvana á óvæntum eiginleikum efna jafnframt því sem það gefur notandanum kost á því að skoða efnisheim okkar á nýjan hátt.“

Skelin utan kakóbaunina náttúruleg aukaafurð

Segðu okkur aðeins frá tilurð þess að þú fórst í samstarf við Omnom og hvernig datt þér í hug að nýta hýði af kakóbaununum.

„Upphafið á þessu verkefni á sér rætur að rekja í mynstur á bakka sem ég hannaði sem virkaði eins og það ætti heima ofan á súkkulaðiplötu. Ég hafði samband við Omnom og eftir kraftmikinn fund kviknuðu stærri hugmyndir,“ segir Theodóra spennt.

„Eftir skoðun um súkkulaðigerðina rak ég augun í hismið eða skelina utan um kakóbaunina, sem er náttúruleg aukaafurð sem fellur til við umbreytingu kakóbauna yfir í súkkulaði en um sex kíló falla til af því dag hvern hjá Omnom. Eins og ég minntist á þá snúast flest af mínum verkefnum að því að skoða hvernig hlutir verða til þannig að vinna með súkkulaðibaunina rýmdi vel við það.“ 

Þegar Kjartan og Theodóra eru spurð út í hvert markmiðið sé með samstarfinu segja þau að það sé að skoða hvernig súkkulaði verður til, lyfta hisminu á hærri stall og búa til hringrásar súkkulaðiupplifun þar sem endaafurðin og hismið renna aftur saman í eitt og mynda skúlptúra. „Með því opnum við glugga inn í það ferli sem á sér stað áður en við getum notið þess að borða súkkulaði og leggja þannig áherslu á upphafið, baunina sjálfa,“ segja samstarfsfélagarnir Kjartan og Theodóra. Þau eru bæði afar ánægð með samstarfið og finnst stórkostlegt að sjá og upplifa útkomuna.

Bragðtegundirnar vitna í mínar persónulegu minningar

Hvar fékkstu innblásturinn fyrir skúlptúrinn?

Omnom notar oft nostalgíu sem innblástur í þróun á nýjum bragðtegundum og ég get speglað mína heimþrá til Íslands í því, eftir að hafa verið búsett í London í lengri tíma. Hismið spilar stærstan part í sýningunni en formin og bragðtegundirnar vitna í okkar menningu, landið okkar og mínar persónulegu minningar,“ segir Theodóra einlæg.

Ferðalag gegnum 8 stöðvar og 10 mismunandi skúlptúrar

Viðburðurinn sem haldinn er í tengslum við HönnunarMars fer fram í höfuðstöðvum Omnom og er fólkið boðið að koma í súkkulaðiupplifun sem á sér enga líka.

„Farið verður með fólk í ferðalag í gegnum átta stöðvar með 10 mismunandi skúlptúrum sem kveikir á öllum skilningarvitunum sjö og býður upp á stórfenglega bragðupplifun. Hver og einn skúlptúr er handgerður úr hismi kakóbaunanna með mismunandi aðferðum sem svo er toppaður með súkkulaðimola sem byggður er í kringum formið,“ segir Kjartan og bætir við að það hafi verið áskorun að temja súkkulaði og fá það til að aðlagast formunum hennar Theodóru en það hafi tekist á endanum. 

Gestum er boðið í ferðalag sem er sannkölluð upplifunarferð með …
Gestum er boðið í ferðalag sem er sannkölluð upplifunarferð með súkkulaðiskúlptúrum. mbl.is/Árni Sæberg

„Formin og bragðið eru eins og áður sagði innblásin af íslenskri menningu og náttúru, allt frá birki og byggi yfir í lakkrísþráhyggju, 10 dropa af kaffi og sjónvarpsköku hjá mömmu. Margt af þessu eru mínar persónulegum minningar en ég held að flestir Íslendingar geti speglað sig í mörgum þeirra,“ segir Theodóra og brosir. 

Hvað finnst þér, Theodóra, standa upp úr í samstarfi ykkar Kjartans?

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt ferli, Kjartan er svo mikill já maður og við höfum átt svo mörg frábær samtöl þar sem við höfum komist á flug með allskonar hugmyndir og er það sem við sýnum á sýningunni bara brot af því. Í einu slíku samtali bauðst hann til að reyna að hafa allt súkkulaðið vegan, þar sem ég er vegan, en ég veit að það var áskorun fyrir hann þar sem það er erfiðara að eiga við vegan súkkulaði vegna þess að fitan í því er mýkri en í hinu skilst mér og því erfiðara í meðförum. En hann rúllaði þessu auðvitað upp,“ segir Theodóra sem er í skýjunum með hvernig til tókst.

Sýningin ber yfirskriftina Samruni þar sem 10 mismunandi súkkulaðiskúlptúrar eru …
Sýningin ber yfirskriftina Samruni þar sem 10 mismunandi súkkulaðiskúlptúrar eru í forgrunni. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðalagið hefst með te-serimóníu

Kjartan tekur undir með Theodóru og bætir við að það hafi verið stórkostlegt að vinna með Theodóru og að hún sé einstakur listamaður. „Það var virkilega gaman að þróa allar uppskriftirnar fyrir súkkulaðitegundirnar og klára að standa sig í því að hafa þær alla vegan. Það nánast tókst, það eru allar vegan nema ein. Síðan er það te-serimónían sem við þróuðum saman áður en ferðalagið hefst gegnum smakkið. Að láta þetta ferðalag verða að veruleika og sjá skúlptúrana verða til veitir okkur hjá Omnom teyminu mikla gleði og ánægju. Við hlökkum til að deila þessari upplifun með gestum og gangandi um helgina,“ segir Kjartan að lokum. 

Allir eru velkomnir á sýninguna meðan húsrúm leyfir en það er mikilvægt að skrá sig þar sem einungis 10 manns komast inn í einu. Hægt er að skrá sig hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert