Jóhannes Felixson, þekktastur undir nafninu Jói Fel, er kominn í sumarskap og farinn að hlakka til grillsumarsins. Í tilefni þess að sumarið er komið sviptir Jói Fel hulunni af sínum uppáhaldssumarrétti sem hann ætlar að útbúa og taka á móti sumrinu.
Jói deilir með lesendum uppskrift að villisveppasósu sem hann heldur mikið upp á, kryddolíu fyrir steikina ásamt meðlæti fyrir tvo. Loks eru það skotheldar eldunarleiðbeiningar fyrir þá sem vilja verða meistarar í að grilla ribeye-nautasteik.
„Þegar ég elda nautakjöt þá vil ég hafa um það bil 54°C kjarnhita en þegar ég er með ribeye-steik þá fer ég með hitann upp í 56-58°C hita svo fitan nái að bráðna í steikinni, hún er svo góð. Það er mikill munur á því að elda naut eða lamb. Lambið má alveg eldast of mikið og sumum finnst það bara betra vel eldað. Þegar ég elda kjúkling verður hann að vera vel kryddaður, helst vil ég að hann brenni smá á grillinu, það gefur svo gott bragð. Eitt sem ég geri ávallt þegar ég grilla er að ég set kjötið alltaf á efri grindina eða á kaldari hlutann á grillinu og leyfi því að jafna sig rólega, hvíla. Það vill oft verða þannig að þegar kjöt kemur beint af grillinu þá er það við svo háan hita og á þá til að vera stífara. Gott ráð er að láta allt kjöt standa í nokkrar mínútur áður en það er borið fram af grillinu. Síðan er það gullna reglan sem ég hef oft sagt áður: ekki fara lengi frá grillinu, það er svo fljótt að brenna allt saman. Að lokum finnst mér ómissandi að vera með einn öl á kantinum – þá klikkar ekkert! Nú held ég að sumarið megi koma,“ segir Jói Fel og brosir sínu breiðasta.
Jóa finnst eiga vel við að para eðalrauðvín með steikinni og meðlætinu þegar sumrinu er fagnað.
mbl.is/Arnþór Birkisson
Ribeye-nautasteik borin fram með villisveppasósu, salati og sætri kartöflu
Ribeye-nautasteik
Fyrir 2
- 400-500 g ribeye-nautasteik
Kryddolía
- 1 dl ólífuolía
- 2 greinar rósmarín
- 4 hvítlauksgeirar
- salt og pipar
Aðferð:
- Byrjið á að saxa niður rósmarín og rífið hvítlaukinn niður í pressu eða með rifjárni.
- Hellið ólífuolíu í könnu eða litla skál og bætið rósmaríni og hvítlauk út í og hrærið saman.
- Kryddið til með salti og pipar.
- Penslið kryddolíunni á nautið rétt áður en það fer á grillið og penslið nokkrum sinnum á meðan steikin er grilluð.
- Þegar ég elda ribeye þá grilla ég kjötið á háum hita, pensla það reglulega með kryddolíunni og fæ fallegar grillrendur á steikina. Þegar ég elda nautakjöt er ég alltaf með kjarnhitamæli, það er ekki annað hægt þegar nautakjöt er annars vegar. Best er að lækka hitann á grillinu eins mikið og hægt er, alveg niður í 70-100°C hita og láta steikina eldast rólega. Það getur tekið allt að 30 mínútur fyrir steik af þessu tagi að eldast á þessum hita. Síðan er lykilatriði að láta steikina standa í um það bil 10 mínútur áður en hún er skorin niður.
Villisveppasósa
- 4 msk. olía
- 1 box flúðasveppir
- 1 box blandaðir villisveppir
- 1 dl púrtvín eða madeiravín
- 2 dl vatn
- 1 bréf Oscar-villisveppakraftur
- ½ l rjómi
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að mylja villisveppina nánast í duft, best að gera í matvinnsluvél.
- Skerið niður flúðasveppina og steikið sveppina saman á pönnu þar til þeir verða brúnir.
- Blandið síðan víninu saman við og látið sjóða niður um helming.
- Setjið næst vatn og kraft saman við og látið sjóða niður þar til um það bil 1 dl er eftir í pottinum.
- Bætið þá rjóma saman við og látið malla í 4-5 mínútur.
- Kryddið með salti og pipar eftir smekk.
- Athugið að gott er að gera sósuna áður en farið er að grilla og leyfa henni að standa.
- Þá kemur meira bragð frá villisveppunum í sósuna.
- Svo bara hita sósuna upp rétt áður en hún er borin fram.
Sætar kartöflur
Aðferð:
- Skerið í lengjur, eða eins og þið viljið hafa kartöfluna, og steikið á pönnu eða á grilli þar til lengjurnar eru léttbrúnaðar.
- Eldið síðan í 180°C heitum ofni í um það bil 30 mínútur.
- Baksturstíminn fer eftir því hversu þykkar sneiðarnar eru.
- Gamli góði prjónninn er alltaf góður hér, stinga í þær og finna að þær séu mjúkar í gegn.
Salat að hætti Jóa Fel
- 1 pk. salatblanda
- 1 grilluð paprika
- rauðlaukur eftir smekk
- kirsuberjatómatar
- 1 krukka salatostur
Aðferð:
- Blandið saman salatblöndu, grillaðri papriku, rauðlauk, kirsuberjatómötum og loks salatosti.
- Jói mælir með að nota olíuna af salatostinum í krukkunni sem salatdressingu. Hann vill ekki nota edik eða sýru þar sem bragðið getur tekið of mikið bragð frá villisveppasósunni sem og ribeye-steikinni.
Steikin girnileg með villisveppasósunni.
mbl.is/Arnþór Birkisson