Grilluð paprika og jarðarberjasalsa með sumarívafi

Bragðgott og fallegt jarðarberjasalsa með grillaðri papriku.
Bragðgott og fallegt jarðarberjasalsa með grillaðri papriku. Ljósmynd/Kristjana Steingrímsdóttir

Hér er á ferðinni uppskrift að fersku, fallegu og bragðgóðu jarðarberjasalsa með grillaðri papriku sem passar með flestum mat. Sérstaklega grillmat, mexíkönskum réttum og fisk. Kristjana Steingrímsdóttir heilsukokkur, sem flestir þekkja undir nafninu Jana, á heiðurinn af þessu jarðarberjasalsa sem á vel við á fallegum sumardegi. Jana birti uppskriftina á Instagram-síðu sinni á dögunum og fylgjendur hennar urðu hreinlega æstir í að fá uppskriftina.

Grilluð paprika og jarðarberjasalsa

  • 2 rauðar paprikur, kjarnhreinsaðar og skornar í litla bita
  • Salt, pipar og ólífuolía eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C hita.
  2. Setjið paprikubitana á ofnplötu klædda bökunarpappír og setjið ólífuolíu, salt og pipar yfir bitana eftir smekk.
  3. Grillið í ofninum í um það bil 15-20 mínútur, eða þar til paprikan er vel grilluð.
  4. Á meðan þið grillið paprikuna er vert að útbúa salsað og dressinguna.

Jarðarberjasalsa

  • 8-10 jarðarber, hreinsuð og skorin í litla bita
  • 6 tómatar, hreinsaðir, skornir í litla bita
  • ½ lítill rauðlaukur, smátt skorinn
  • ½ búnt basil, saxað gróft
  • ½  búnt kóríander, saxað gróft

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í stóra og víða skál.

Dressing

  • 3-4 msk. ólífuolía
  • 1 msk. ferskur sítrónusafi
  • 1 msk. balsamik gljái
  • Salt  og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Setið allt hráefnið saman í krukku með loki og hristið saman.

Samsetning:

  1. Takið skálina með jarðarberjasalsanu og bætið við paprikubitunum við  og blandið að vild.
  2. Takið síðan dressinguna í krukkunni og hellið yfir að vild.
  3. Hrærið saman eins og ykkur langar til.
  4. Berið fram með því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka