Dýrðlegar gulrótarbollakökur sem bráðna í munni

Syndsamlega góðar gulrótarbollakökur sem bráðna í munni.
Syndsamlega góðar gulrótarbollakökur sem bráðna í munni. Samsett mynd

Elenora Rós Georgsdóttir bakari er snillingur þegar kemur að því að töfra fram kræsingar sem fólk missir sig yfir. Hún bakaði þessar dýrðlegu gulrótarbollakökur í tilefni þess að sumarið er komið sem gestir hennar misstu sig yfir, svo mjúkar og rjómaostakremið syndsamlega gott. Þessar bráðna hreinlega í munni og þetta krem er rosalegt. Ef þig langar að slá í gegn í næsta kaffiboði eða gleðja vinnufélagana þá er ein leið að baka þessar og mæta með í vinnuna. Matur er mannsins megin eins og flestir vita.

Freistandi að baka þessa dýrðlegu bollaköku.
Freistandi að baka þessa dýrðlegu bollaköku. Ljósmynd/Elenora Rós

Gulrótarkaka eða gulrótarbollakökur

250 g hveiti
1 ½ tsk. matarsódi
½ tsk. salt
1 ½ tsk. kanill
300 ml olía
200 g sykur
200 g púðursykur
4 egg
400 g gulrætur

Rjómaostakrem

  • 120 g smjör
  • 210 g rjómaostur
  • 500 g flórsykur
  • 30 ml rjómi
  • Sítrónubörkur af einni sítrónu
  • Vanilla eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Útbúið kökuform með því að klæða bollakökuform með bökunarpappír og smyrja það eða notaðu hefðbundið kökuform fyrir eina köku.
  3. Byrjið á því að skræla og rífa niður gulræturnar.
  4. Þeytið saman olíu, sykur og púðursykur  þar til blandan veður létt, ljós og loftkennd.
  5. Þegar olíu og sykurblandan er tilbúin byrjið þá hægt og rólega að bæta eggjunum út í, einu í einu og þeytið vel á milli.
  6. Sigtið síðan þurrefnin ofan í deigið og blandið varlega saman við með sleif.
  7. Bætið að lokum gulrótunum út í deigið og blandið varlega saman.
  8. Setjið deigið í kökuformið og bakið í 40-50 mínútur eða ausið í bollakökuformin og bakið í 25-35 mínútur. Bakið þar til tannstöngli er stungið í og hann kemur hreinn út.
  9. Á meðan bollakökurnar eru að kólna skulu þið búa til kremið.
  10. Þeytið saman smjörið og rjómaostinn þar til það er orðið létt og ljóst og engri kögglar eru eftir.
  11. Sigtið næst flórsykurinn út í, ekki sleppa því að sigta því það kemur í veg fyrir kekkir myndist í kreminu.
  12. Þeytið saman við sítrónubörk, rjóma og vanillu þar til kremið er ofurlétt og silkimjúkt.
  13. Þegar kakan eða bollakökurnar hafa kólnað alveg er kremið sett ofan á.
  14. Skreytið að vild.
  15. Síðan er lag að bera kökurnar fram og njóta í góðum félagsskap.
Elenora Rós gerði sjálf formin úr bökunarpappír. Stórsnjallt og stíhreint.
Elenora Rós gerði sjálf formin úr bökunarpappír. Stórsnjallt og stíhreint. Ljósmynd/Elenora Rós
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert