Sigríður Hrund Pétursdóttir upplýsir lesendur matarvefsins um matarvenjur sínar og siði þegar kemur að því að næra líkama og sál.
Sigríður Hrund er stofnandi Vinnupalla og fyrrum formaður FKA – Félags kvenna í atvinnulífinu. Hún er einnig fyrrum tilvonandi forsetaframbjóðandi en hún dróg framboð sitt til baka þar sem henni tókst ekki að ná undirskriftum þeirra 1.500 manns sem til þurfti fyrir framboðið. Hún er þekkt fyrir að stunda heilsuna á heildrænan máta þrátt fyrir annasama daga. Sigríður Hrund veitir lesendum innsýn inn í matarvenjur síðustu vikna sem hafa verið afar sérstakar meðan hún fór um landið að hitta landsmenn og safna undirskriftum fyrir forsetaframboð. Hún áætlaði að vera með forsetaframbjóðendum í för en tókst því miður ekki að ná markinu sem til þurfti.
„Í húsi mínu búa fimm fjölskyldumeðlimir í bili, annar tvíburadrengurinn er fluttur að heiman með unnustu sinni. Við erum öll með nóg af verkefnum í vinnu, skóla og áhugamálum og það er mikil kúnst að ná öllum saman við matarborðið. Síðustu vikur hafa einkennst af miklum ferðalögum hjá mér víðs vegar um landið og fjölbreyttu kynningarstarfi og reglubundnir matartímar hafa ekkert alltaf verið í boði. Grænir þeytingar, hafragrautur, orkustykki og kaffi hafa verið með í för satt best að segja. En hér gildir að gera sitt besta, vera með orkuna í lagi, hreyfa sig þegar glufa gefst og fara eins snemma að sofa og mögulegt reynist. Ég lifi í tímabilum og hóf þetta ár á því að styrkja mig með lyftingum. Það hefur allt skilað sér í úthaldi, þoli og framkvæmdagleði. Sumarið mun síðan fara í viðhalds- og uppbyggingarverkefni ásamt því að dýrka vatnið með sjó- og vatnasundi,“ segir Sigríður Hrund einlæg.
„Mér finnst mikilvæg að við veljum að borða hollt, næringarríkt og í meðvitund. Matur nútímans er oft fullur af aukaefnum sem við þurfum ekki á að halda. Það er mikilvægt að borða í ró, í samveru og þannig að við nærum okkur á líkama, anda og sál. Þá erum við raunverulega að næra okkur á marga vegu í einu. Næring, hreyfing og hvíld er hin heilaga þrenning heilsunnar og skipta allir hlutar jafn miklu máli,“ segir Sigurður Hrund ennfremur.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Annaðhvort fæ ég mér grænan drykk stútfullan af meinhollum innihaldsefnum eða hafragraut með múslí og haframjólk. Það fer eftir því hvaða verkefni eru um daginn hvað ég næri líkamann á. Morgunmaturinn er líka misjafn að tímasetningu, ef ég fer í sund klukkan 6:30 þá langar mig ekki í mat fyrr en um 10 leytið, ef ég fer í leikfimi um morguninn þá er morgunmaturinn stundum orðinn að hádegismat.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég borða helst lítið á milli mála og það væri t.d. eplabitar með hnetusmjöri, orkuríkir hnetubitar eða appelsínubátar. En óreglulegir dagar síðustu vikna krefjast þess að hafa ávallt orkustykki með í för og missa aldrei niður orkuna.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
Algjörlega. Get ekki án hádegisverðar verið. Þetta er lykilmáltíð dagsins. Ef ég borða ekki vel í hádeginu verð ég svöng þegar líður á daginn, afhuga og sveimhuga. Þá er einfaldara að missa aldrei úr hádegismat og borða kvöldmat frekar snemma.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Mjólk og hollt nesti fyrir börnin, egg, parmesanost og grænmeti fyrir mig, skyrskvísur fyrir bóndann. Við elskum holla þeytinga svo það er iðulega til hráefni í slíkt bæði í ísskápnum og í frystinum.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?
„Ef við erum aðeins tvö hjónin úti að borða þá er hádegisverður iðulega fyrir valinu. Það brýtur upp daginn, það er auðveldara að koma stundinni fyrir og við njótum samverunnar betur. Við eigum okkur engan uppáhaldsstað og elskum að uppgötva nýja veitingastaði. Það er aðeins við afar sérstök tilefni sem við tökum börnin með okkur á veitingastaði og þá helst í bröns á sunnudegi. Annars erum við afar heimakær og finnst fátt betra en að eiga samveru heima með sérvalda plötu á fóninum. Einfalt er betra.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á „Bucket-listanum“ yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Nei, ekkert frekar. Þegar ég ferðast hef ég gaman af því að spyrja heimafólk hvert það fer út að borða og finna þannig leyndar gersemar. Þannig hef ég oft fengið óvænta upplifun og mat sem ég myndi ellegar ekki velja mér fyrir fram.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Ég borða helst ekki pítsu en stel mér einum og einum bita frá krökkunum ef slíkur matur ratar á borðið. Best þykir mér ítölsk pítsa af litlum fjölskylduveitingastað hvar sem er á Ítalíu.“
Uppáhaldsrétturinn þinn?
„Bixie“. Það er gróf brauðsneið neðst, steikt grænmeti með eggjablöndu og parmesanosti ofan á og ofgnótt af litríku grænmeti efst. Halloumi ostur, kjúklinganaggi eða grænmetisbuff á það til að bætast við.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Það er ávallt salat með mínum mat. Ég er framúrskarandi góð í að búa til fjölbreytt salöt, enda líður mér best á sem grænustu og náttúrulegustu fæði. Það fer eftir árstíðum hvað ratar í salatið, enda er hollt að borða eftir árstíðum.“
Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?
„Bæði henta mér vel. Skemmtilegast finnst mér að kenna börnunum mínum til verka og leyfa þeim að kenna mér til baka. Samveran skiptir mestu máli. Enn fremur að leyfa tilbrigði, hafið þið t.d. prófað bleikar vöfflur? Eða bláan rjóma? Matarlitur er afar spennandi tilbrigði, ekki síst með börnum. Einnig hef ég gaman af því að bera mat fallega fram, leyfa börnunum að raða á borð og gera matarsamveru að minningum.“