Þessi yndislega orkugefandi sumarhrákaka á vel við í upphafi sumars og kemur hún úr smiðju Kristjönu Drafnar Haraldsdóttur heilsumarkþjálfa, sem alla jafna er kölluð Jana. Hún heldur úti vefsíðunni Nærandi líf og deilir þar með lesendum uppskriftum og ýmsum fróðleik um heilsu og næringu. Hrákakan er með fallegum bleikum og grænum lit sem Jana segir tákna hjartað og veitir þér innblástur til þess að auka sjálfsumhyggju og sjálfsmildi í sumar.
Líka góð í góðra vina hópi
Þessi hrákaka er fullkomin til að eiga í frysti þegar þú hefur verið úti heilu og hálfu dagana. Það er svo nærandi að vita til þess að eiga eitt stykki af köku inn í frysti. Ekki skemmir fyrir að hún er stútfull af næringu og orku. Hún gengur líka í góðra vina hópi með góðum kaffibolla eða bara upp í sófa þegar það rignir eða sem góður eftirréttur eftir góða grillveislu.
Það sem einkennir þessa köku er að hún er með matcha en matcha er japanskt te sem er einstaklega orkugefandi, minnkar bólgur og er ríkt af andoxunarefnum. Matcha getur hjálpað efnaskiptum í líkamanum ásamt því styðja við nýrnahetturnar og skerpa á einbeitingu.
Sumarhrákaka með matcha og hindberjum
Botn
- 90 g möndlur
- 30 g sólblómafræ
- 50 g kókos
- ½ tsk. kanill
- smá sjávarsalt
- 6-7 döðlur
- 1 msk. sesamsmjör (tahini)
Aðferð:
- Byrjið á því að setja allar kasjúhneturnar í vatn í 4 klukkustundir.
- Blandið saman möndlum, sólblómafræjum, kókos, kanil, saltinu og vanillunni í matvinnsluvél.
- Blandið vel saman.
- Bætið síðan við döðlum og sesamsmjöri.
- Deigið á að vera pínu blautt þannig að þið getið gert kúlur úr því. Ef ekki bætið þá við smá vatni.
- Blandið vel saman.
- Setjið í form, passlega stærð. Því minna sem formið er því hærri verður kakan. Hafðið bökunarpappír undir deiginu og þrýstið vel niður.
- Setjið í frysti í um 2 til 3 klukkustundir.
Miðjulag (bleikt – hindberja)
- 100 g frosin hindber
- 100 g kasjúhnetur, leggja í bleyti í 4 klukkustundir
- 60 ml hlynsíróp (maple syrup)
- 1 msk. sítrónusafi
- 1 tsk. vanilla
- 1 msk. möndlusmjör
- 80 g kakósmjör
Aðferð:
- Hellið vatninu af kasjúhnetunum. Takið frá 120 g frá fyrir efsta lagið.
- Blandið saman kasjúhnetum, hindberjum, hlynsírópi, möndlusmjöri, vanillu og sítrónusafa í blandara.
- Bræðið kókossmjör í potti og kælið aðeins.
- Setjið brædda kókossmjörið í blandarann með öllum hinum hráefnunum.
- Blandið vel saman. Stoppið reglulega og takið hráefnið frá hliðunum, þannig að ekki verði eftir kögglar efst.
- Takið botninn út úr frysti og smyrjið þessu yfir botninn.
- Setjið aftur inn í frysti í 1 til 2 klukkustundir.
Efsta lagið
- 120 g kasjúhnetur, búnar að liggja í bleyti í 4 klukkustundir
- 60 ml hlynsíróp (maple syrup)
- 1 msk. sítrónusafi
- 1 tsk. vanilla
- 80 g kakósmjör
- 1 msk. möndlusmjör
- 2 tsk. matcha-púður
- Nokkur hindber til að pressa niður og/eða til skreytingar
Aðferð:
- Takið vatnið af kasjúhnetunum.
- Blandið kasjúhnetum, hlynsírópi, möndlusmjöri, vanillu og sítrónusafa í blandara. Bræðið kókossmjörið í potti og kælið aðeins.
- Setjið brædda kókossmjörið í blandarann með öllum hinum hráefnunum.
- Blandið vel saman.
- Bætið við matcha-duftinu við og blandið vel saman. Stoppið og takið hráefnið frá hliðunum á blandaranum, þannig að ekki verði eftir kögglar efst.
- Þegar kakan er búin að vera í um 2 klukkustundir í frysti setjið þá græna lagið yfir það bleika.
- Setjið kökuna síðan aftur inn í frysti í um 2 til 3 klukkustundir.
Skreyting
- Takið kökuna út úr frystinum rétt áður en hún er borin fram og þið getið skreytt kökuna með súkkulaði, hindberjum eða sem hugurinn girnist.