Hollustupítsa með burrata og parmaskinku

Girnilegar og hollar pítsur sem tekur örskamma stund að útbúa.
Girnilegar og hollar pítsur sem tekur örskamma stund að útbúa. Samsett mynd

Föstu­dag­ar eru pítsudagar hjá mörg­um fjöl­skyld­um og nú er komið að upp­skrift mat­ar­vefs­ins fyr­ir föstudagspítsuna sem les­end­ur geta prófað og máta sig við.

Að þessu sinni er það hollustupítsa með parmaskinku og burrata osti og í pítsagerðina að þessu sinni notaði ég lífræna pítsubotna frá Ebbu Guðnýju og Kaju sem eru alveg frábærir. Þeir eru glútenlausir og lífrænir og fullkomið í grípa í þá þegar holla pítsu skal gera á skömmum tíma.

Pítsubotnarnir fást meðal annars í Hagkaup og eru seldir frosnir, tveir botnar í hverri pakkningu. Botnarnir eru forbakaðir en það upplagt að forbaka þá aftur ef þið viljið hafa þá stökka.

Burrata-ostur er algjört sælgæti að njóta á pítsu og hægt er að leika sér með meðlætið, eftir því sem ykkur langar til. Það er líka gott að setja heimagert pestó ofan á burrata ostinn á pítsunni.

Burrata osturinn er sælgæti að njóta og þessir pítsabotnar eru …
Burrata osturinn er sælgæti að njóta og þessir pítsabotnar eru snilld. Ljósmynd/Sjöfn

Burrata og parmaskinku pítsa á holla mátann

Fyrir 2

  • 1 pk. Lífrænir pítsubotnar frá Ebbu Guðnýju og Kaju (2 stk.)
  • 1 stór niðursuðudós Mutti pítsaasósa aromatica
  • 1 pk. rifinn mozzarellaostur
  • 2 stk. burrata ostur
  • 1 pk. parmaskinka
  • 1 pk. blandað salat eða klettasalat
  • Ferskar sprettur ef vill

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C með blæstri og forbakið frosnu botnana í 5 til 10 mínútur.
  2. Takið botnana út og setjið ofan á þá pítsasósu og mozzarellaost eftir smekk, setjið síðan aftur inn ofn og bakið þar til osturinn er bráðinn.
  3. Setjið parmaskinku á botnana eftir smekk, síðan salatið og loks burrata ost á sitt hvorn botninn í miðjuna og opnið burrata ostinn. Upplagt er að strá yfir pítsurnar ferskum sprettum eftir smekk eða ferskri basilíku.
  4. Berið fram og njótið. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert