Jón Gnarr leikari, listamaður, grínisti og forsetaframbjóðandi, er viðmælandi matarvefs mbl.is að þessu sinni. Hann elskar að elda mat og vill helst vera með norðurevrópskan heimilismat. Hann vill hafa matinn sinn sterkan, en þjóðlegan. Hann er þó ekki hræddur við að prófa nýja hluti.
„Mín uppáhaldsmatarmenning er norðurevrópsk. Norðurevrópskur heiðarlegur heimilismatur er stórkostlegur að njóta,“ segir Jón og bætir við að hann sé líka einstaklega hrifinn af súrkáli.
Hann svarar hér nokkrum laufléttum spurningum um matarvenjur sínar og siði.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Hafragraut með skyri sem kallaðist einu sinni hræringur.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Nei, yfirleitt ekki. Ef mig vantar orku þá fæ ég mér orkustykki.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Nei, ég er meiri morgunverðarmaður. Yfirleitt er ég nokkuð saddur í hádeginu.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Skyr og epli.“
Fer á Múlakaffi þegar hann ætlar að gera vel sig
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?
„Múlakaffi. Mér finnst það æðislegur staður. Maturinn og stemningin. Þar höldum við Sigurjón yfirleitt alla okkar vinnufundi.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á „bucket-listanum“ yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Það er æðislegur staður í Kaupmannahöfn sem heitir Det lille Apotek. Það er algjörlega frábær staður og mig langar að smakka þar elsta réttinn sem mér skilst að sé frá 17. öld.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Ég vil pepperóní og íslenskan eldpipar.“
Uppáhaldsrétturinn þinn?
„Kótelettur í raspi með grænum baunum og súrkáli.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Bæði.“
Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?
„Matreiða. Mér finnst rosalega gaman að elda mat.“