Sigríður Beinteinsdóttir, eða Sigga Beinteins eins og hún er kölluð, er komin með nýja svuntu í eldhúsið. Það má því segja að hún sé Baldur í eldhúsinu. Á dögunum settu stuðningsmenn Baldurs Þórhallssonar forsetaframbjóðanda svuntur og bolla í sölu til að styrkja framboðið.
„Þetta þótti okkur skemmtileg hugmynd hjá stuðningsfólkinu, að búa til bolla og svuntur þar sem hægt er að vera annaðhvort Baldur eða Felix. Þá getur fólk spurt, hvor er Baldur og hvor er Felix á heimilinu. En það minnir mikið á spurningar sem við fengum á árum áður um hvor væri hvað í sambandinu,“ segir Felix Bergsson, eiginmaður Baldurs Þórhallssonar.
„Núna er vist góð sala í bollum og svuntum. Einnig hefur talsvert selst af fánum. Það eru svo líka á leiðinni bláar svuntur í vikunni,“ segir Felix en eins og sjá má er það ekki bara Sigga Beinteins sem er komin með svuntuna og bollann heldur Sigurður Hlöðversson, eða Siggi Hlö eins og hann er kallaður, og Þuríður Blær Jóhannesdóttir, tengdadóttir þeirra Baldurs og Felix.