Klassísk rækjubrauðterta sem bragðast dásamlega vel

Klassísk rækjubrauðterta fyrir þá sem elska brauðtertur.
Klassísk rækjubrauðterta fyrir þá sem elska brauðtertur. Ljósmynd/Sjöfn

Brauðtertur er þjóðlegt fyrirbæri á Íslandi og fátt er betra þegar veislu skal gjöra en fá ljúffenga brauðtertu sem minnir á gamla góða tímann. Sú brauðterta sem mér finnst allra best er klassísk rækjubrauðterta eins og amma mín heitin gerði ávallt og ég skreyti hana á stílhreinan og einfaldan hátt. Ekki ofgnótt af neinu. Þessa brauðtertu gerir ég nokkrum sinnum á ári við sérstök tilefni og hún minnir ávallt á kaffiboðin eins og þau voru forðum. Á brauðtertuna set ég klassískt rækjusalat án flækjustigs og síðan skreyti ég hana á einfaldan máta þar sem bragðið fær að njóta sín.

Inniheldur einungis egg frá frjálsum hænum

Mér finnst líka skipta máli hvernig majónesið bragðast og í dag er ég búin að finna mitt uppáhaldsmajónes sem var ekki til hér áður fyrr en þetta er majónesið frá Heinz. Það bragðast svo vel, áferðin er léttari og fallegri og síðan er það ekki eins óhollt og sagt hefur verið um majónes almennt. Þegar ég sé vörumerkið Heinz dettur mér fyrst bakaðar baunir eða tómatsósa í hug. Um tíma var talið að majónes væri síður en svo heilsusamleg fæða en ef við skoðum þetta nánar þá eru helstu innihaldsefni í majónesi olía og egg og í dag myndu þessi hráefni alls ekki flokkast sem óholl matvara. Gaman er að segja frá því að Heinz-majónesið inniheldur einungis egg frá frjálsum hænum og kom það mér á óvart. Það er algjörlega án litarefna, bragðefna eða ónáttúrulegra þykkingarefna og stuðlar þannig að því að máltíðin verði sem hreinust. Majónes er hægt að notað á fjölbreyttan máta og það er þeim kostum gætt að geta gert góða máltíð enn betri. Ykkur að segja þá nota ég þetta majónes þegar ég geri samlokur, salöt, heimalagaða kokteilsósu svo fátt sé nefnt.

Hér er síðan mín uppskrift að hinni klassísku rækjubrauðtertu sem bragðast alveg dásamlega vel og er í miklu uppáhaldi hjá mínu fólki.

Klassísk rækjubrauðterta að hætti Sjafnar

  • 400 g rækjur, þíddar (ég vel fallegar rækjur og passa að þær séu ekki of smáar)
  • 5 lífræn egg, harðsoðin og skorin í eggjaskerara á báða vegu.
  • 400- 500 g Heinz-majónes
  • Örlítið sinnep
  • Hvítur pipar eftir smekk
  • Sítrónusafi úr ferskri lífrænni sítrónu, gott er að dreypa smávegis af sítrónusafa á rækjurnar
  • Brauðtertubrauð, skorið langsum

Til skreytinga

  • 1-2 msk. 18% sýrður rjómi (ef vill)
  • Heinz-majónes eftir þörfum
  • 1-2 lífrænar sítrónur, skerið í fallegar sneiðar
  • ½ agúrka, skerið í fallegar sneiðar
  • 1 búnt fersk steinselja
  • 1-2 harðsoðin egg ef vill, skorin í sneiðar í eggjaskerara

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman Heinz-majónes og sinnep eftir smekk, ekki setja mikið sinnep.
  2. Piprið eftir smekk.
  3. Setjið næst eggin út í.
  4. Kreistið örlitlum sítrónusafa úr ferskri sítrónu yfir rækjurnar og bætið þeim síðan í blönduna.
  5. Gott er að setja rækjusalatið á brauðtertubrauðið sólarhring fyrir notkun en það er ekki nauðsynlegt. Það er líka hægt að gera rækjusalatið daginn fyrir notkun og geyma í kæli í sólarhring.

Samsetning og skreyting

  1. Finnið til fallegt viðarbretti eða ílangan disk sem passar fyrir brauðtertuna.
  2. Takið brauðtertubrauðið og skerið endana af á snyrtilegan hátt. Gott að miða við að vera með fjögurra hæða brauðtertu, nota fjögur lög.
  3. Leggið fyrsta lagið á brettið eða diskinn sem þið ætlið að bera brauðtertuna fram á.
  4. Setjið rækjusalatið á milli laga brauðtertunnar þar til þið eruð komin upp á fjórðu hæð.
  5. Hrærið saman sýrðum rjóma og majónesi til að smyrja brauðtertuna með. Margir segja að hvíti liturinn á majónesinu haldist betur ef smá af sýrðum rjóma er blandað við majónesið. Það er ekki nauðsynlegt að gera þetta.
  6. Smyrjið alla brauðtertuna, ofan á og allar hliðarnar.
  7. Skreytið síðan með agúrku- og sítrónusneiðum ofan á og rifið niður steinselju eftir smekk og setjið með fram agúrku- og sítrónusneiðunum ofan á.
  8. Skreytið hliðarnar með agúrkusneiðum, má líka skreyta hliðarnar með eggjum, skorin í sneiðar í eggjaskera.
  9. Skreytið loks brettið eða diskinn sem brauðtertan er á með ferskri steinselju. Steinselja, sítróna og egg passa mjög vel með rækjum, því er upplagt að skreyta með þessu hráefni.
  10. Berið fram og njótið í góðra vina hópi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka