Er í lagi að drekka kaffi á fastandi maga?

Er fyrsti bolli dagsins slæmur fyrir heilsuna?
Er fyrsti bolli dagsins slæmur fyrir heilsuna? Skjáskot/Instagram

Tilhugsunin um fyrsta kaffibolla dagsins kemur mörgum fram úr rúminu á morgnanna. En er slæmt fyrir heilsuna að drekka kaffi á fastandi maga?

Morgunbollinn hefur verið áberandi í umræðunni á samfélagsmiðlinum TikTok. Hann er án efa ómissandi partur af morgunrútínu margra – hins vegar vilja sumir meina að hann geti valdið vandamálum eins og uppþembu, hárlosi, hormónaójafnvægi, kvíða og skjaldkirtilsvandamálum ef hann er drukkinn á fastandi maga. 

Að undanförnu hefur hormónaheilsa verið heitasta trendið á TikTok og gríðarlegt magn af upplýsingum hægt að finna þar, bæði gagnlegum og ógagnlegum. Þegar kemur að heilsutengdu efni sem birt er á samfélagsmiðlum eins og TikTok er þó mikilvægt að hafa gagnrýna hugsun að leiðarljósi og skoða hvað fræðin segja – þá verður auðveldara að skilja að reynslu eða upplifun einhvers og staðreyndir sem styðjast við ritrýndar rannsóknir. 

Rannsóknir benda ekki til skaðlegra áhrifa fyrir flesta

Í þessu tilfelli benda sérfræðingar á að rannsóknir hafi hingað til sýnt fram á að hjá flestum sé ólíklegt að það valdi verulegum heilsufarsvandamálum eða skaðlegum aukaverkunum að drekka kaffi á fastandi maga – svo framarlega sem það sé drukkið í hófi.

Hins vegar getur það valdið streitu og meltingarvandamálum hjá sumum að því er fram kemur í samantekt sem næringarfræðingurinn Jillian Kubala birti á vef Mind Body Green. „Að drekka kaffi á fastandi maga getur kallað fram eða aukið einkenni ákveðinna heilsufarsvandamála, eins og kvíða, GERD og annarra meltingarvandamála. Það getur einnig aukið kortisólsvörun þegar þess er neytt við streituvaldandi aðstæður,“ segir hún.

Þó svo neysla á kaffi valdi ekki skaða í flestum tilfellum mælir Kubala sterklega gegn því að fólk noti kaffi í stað morgunmatar. „Jafnvel þótt þú drekkir kaffi á fastandi maga á morgnanna þá skaltu fá þér morgunmat í kjölfarið. Fyrsta máltíð dagsins er mikilvæg fyrir orku, blóðsykursjafnvægi og fleira,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert