Vikumatseðill Rósu skólastjóra

Rósa Harðardóttir er skólastjóri í Selásskóla og matgæðingur.
Rósa Harðardóttir er skólastjóri í Selásskóla og matgæðingur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Rósa Harðardóttir, skólastjóri í Selásskóla í Reykjavík, er mikill matgæðingur. Það er mikið að gera í skólanum um þessar mundir en þess á milli er hún dugleg að elda og baka fyrir fjölskylduna. Rósa býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. 

„Það er nóg að gera í Selásskóla nú þegar skólaárinu er að ljúka. Við leggjum mikla áherslu á sköpun, tækni, lestur og útikennslu. Í apríl þá er venjulega bókmenntahátíð og að þessu sinni þá var þemað lýðræði sem rímar vel það sem er að gerast í þjóðfélaginu í dag, kosningar framundan og mikilvægt að fræða nemendur um lýðræði. Nýlega fengum við einnig Hvatningarverðlaun Skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar fyrir tvö verkefni sem við höfum unnið að, STEM í 1. og 2. bekk og Bátaleikana sem fóru t.d fram hér við Rauðavatn nýlega,“ segir Rósa um það sem er að gerast í skólanum þar hún segir börnin vera yndisleg. 

Gerðist áskrifandi að Gestgjafanum sem unglingur

Ertu mikill matgæðingur?

„Ég myndi segja að ég væri mikill matgæðingur og var örugglega 15 eða 16 ára þegar Gestgjafinn fór að koma út og ég gerðist áskrifandi. Áður fór ég reglulega í bókabúð Jónasar Eggertssonar í Árbænum og keypti dönsk matarblöð og óskaði eftir því að hægt væri að fá sambærilega blöð á íslensku. Ég hef gaman að glugga í uppskriftabækur og blöð og prófa mig áfram þótt það hafi minnkað með árunum. Ein vinkona mín sagði við mig um daginn: „Mig langar stundum að vera gift þér svo ég geti fengið að borða matinn sem þú eldar“. Ég er í matarklúbbi með vinahjónum þar sem það er algjör skylda að matreiða eitthvað sem við höfum aldrei eldað áður. Oft tekur undirbúningur heilan dag og þegar ég er þreytt eftir langa vinnuviku þá er það eins og heilun að gleyma sér í flóknum undirbúningi og matargerð og hlusta á Noruh Jones.“

Vikumatseðillinn 

Hér má sjá vikumatseðil Rósu en vikan byrjar á þriðjudegi að þessu sinni þar sem mánudagur var frídagur. 

Þriðjudagur – Dijon-kjúklingur

„Í dag er það einn af okkur uppáhaldsréttum en hann fann ég í uppskriftarbók sem börn í frjálsum íþróttum hjá ÍR settu saman í fjáröflunarskyni. Þennan rétt elda ég oft, hann er einfaldur, fá hráefni og mjög góður.“

Það er þægilegt að elda Dijon-kjúklingaréttinn en hann er eldaður …
Það er þægilegt að elda Dijon-kjúklingaréttinn en hann er eldaður á pönnu. Ljósmynd/Colourbox

Dijon-kjúklingur

Fyrir 4

  • 4 kjúklingabringur
  • 30 gr smjör
  • 2 msk. ólífuolía
  • 1 blaðlaukur, saxaður
  • 1 pressað hvítlauksrif
  • 1 msk. dijion-sinnep
  • ½ krukka af sólþurrkuðum tómötum
  • 2 dl af matreiðslurjóma
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið á pönnu.
  2. Kryddið kjúklingabringurnar og brúnið þær.
  3. Takið bringurnar af pönnunni.
  4. Þrífið pönnuna eða takið fram aðra og hitið olíu og mýkið blaðlaukinn.
  5. Bætið hvítlauknum, sinnepinu og tómötum á pönnuna og látið krauma í 5 mínútur.
  6. Setjið bringurnar aftur á pönnuna og hellið rjómanum yfir.
  7. Setjið lok yfir og látið krauma í 10 mínútur. 

Tillaga að meðlæti: 

  • Kúskus og gott salat

Miðvikudagur – Pasta með beikoni og blómkáli

„Pasta klikkar ekki og þessi réttur kemur verulega á óvart. Sumir vilja samt oft hafa rjóma í pastaréttum og það er ekki verra að skella smá lögg út á þennan.“

Það munu allir biðja um þennan rétt aftur í matinn.
Það munu allir biðja um þennan rétt aftur í matinn. mbl.is/Spis Bedre

Fimmtudagur – Lasagna

„Fimmtudagar eru fjölskyldudagar hjá okkur. Þá sækjum við barnabarnið í leikskólann og bæði börnin og makar eru í mat. Þá elda ég oft eitthvað sem þægilegt er að gera í meira magni og gjarnan eitthvað sem hægt er að undirbúa kvöldinu áður svo ég hafi tímann fram að mat til annars. Lasagna er einmitt heppilegt til þess og hef ég prófað ófáar uppskriftirnar. Hér er ein mjög góð og hef ég prófað að sleppa hvítvíni og setja rauðvín í staðinn og það er ekki síðra.“

Rósa eldar lasagna fyrir stórfjölskylduna.
Rósa eldar lasagna fyrir stórfjölskylduna. Ljósmynd/Unslpash.com/Angèle Kamp

Föstudagur – Humarpizza

„Hvað er betra en góð heimatilbúin pizza á föstudögum hvort sem gesti ber að garði eða ekki. Ef maður vill gera vel við sig þá slær þessi humarpizza í gegn.“

Humarpizza er lúxus um helgar.
Humarpizza er lúxus um helgar.

Laugardagur – Kjúklingaréttur með krömdum ólífum og steinselju

„Mér finnst kjúklingur góður og elda hann nokkuð oft og finnst sérlega gaman að rekast á nýjar og spennandi uppskriftir. Þessi kom skemmtilega á óvart, léttur og fínn og passar vel á rómantísku laugardagskvöldi.“

Kjúklingaréttur með krömdum ólífum, steinselju og hvítlauk.
Kjúklingaréttur með krömdum ólífum, steinselju og hvítlauk. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir.

Sunnudagur – Sítrónukaka og lambalæri

„Með sunnudagskaffinu þá er þessi í algjöru uppáhaldi, hverfur um leið og hún er sett á borðið.“

Starbucks sítrónukaka
Starbucks sítrónukaka
Lambakjöt á sunnudögum svíkur ekki.
Lambakjöt á sunnudögum svíkur ekki. Ljósmynd/Íslenskt lambakjöt


„Á sunnudagskvöldum finnst mér gaman að geta boðið mömmu og börnunum í mat og þá er lambakjötið vinsælt annað hvort læri eða hryggur.“

Mánudagur - Plokkfiskur með rúgbrauði

„Á Íslandi borðum við gjarnan fisk á mánudögum og ætla ég að halda mig við það. Ég verð hins vegar að viðurkenna að nú hin síðari ár hef ég ekki verið nógu dugleg að prófa mig áfram með fiskrétti. En nú ætla ég að bjóða upp á plokkfisk og alls ekki freistast til að kaupa tilbúinn rétt heldur elda hann frá grunni. Ég baka gjarnan rúgbrauðið sjálf og á nokkra nokkrar sneiðar í frysti.“

Gamli góði plokkfiskurinn klikkar ekki og er langbestur með rúgbrauði.
Gamli góði plokkfiskurinn klikkar ekki og er langbestur með rúgbrauði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert