Samfélagsmiðlastjarnan Birta Hlín Sigurðardóttir hefur slegið rækilega í gegn á Instagram, TikTok og Youtube. Þar deilir hún lífstíls- og tískutengdu efni, þar á meðal ljúffengum uppskriftum sem fá bragðlaukana til að dansa.
Nýverið deildi hún uppskrift að heimagerðu granóla sem hún elskar að búa til og eiga yfir vikuna, en uppskriftin er einföld og auðvelt að sníða hana að smekk hvers og eins – til dæmis með því að nota aðrar hnetur eða fræ en Birta Hlín notar.
Granólað er tilvalið til að toppa skyr- eða jógúrtskál, „smoothie“ skál, hafragraut eða hvað sem hugurinn girnist.
Granólauppskrift sem kitlar bragðlaukana
- 2 bollar hafrar
- 1 bolli hnetur (Birta Hlín notar möndlur og valhnetur)
- 1/2 bolli fræ (Birta Hlín notar sólblóma-, hör- og graskersfræ)
- 1/2 tsk. kanill
- 1 tsk. vanilludropar
- 1/4 bolli kókosolía
- 1/4 bolli hunang
- Klípa af salti
Aðferð:
- Hitið ofninn á 180°C.
- Setjið hafra, hnetur, fræ, kanil og salt í stóra skál og blandið saman. Bætið svo vanilludropum, kókosolíu og hunangi út í og blandið vel saman.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og hellið blöndunni á plötuna. Dreifið vel úr henni og þrýstið blöndunni niður.
- Bakið í ofninum í 20-25 mínútur eða þar til blandan er orðin gullinbrún. Þegar tíminn er hálfnaður er hrært í blöndunni og henni þrýst aftur niður.
- Leyfið blöndunni að kólna og setjið hana í fallega krukku eða ílát.