Mjög ánægður með árangurinn í Bocuse d'Or

Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari fer senn að undirbúa sig fyrir …
Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari fer senn að undirbúa sig fyrir aðalkeppnina í Bocuse d'Or sem haldin verður í Lyon í Frakklandi í byrjun næsta árs. Samsett mynd

Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari og Kokkur ársins árið 2023 keppti fyrir Íslands hönd í undankeppni Bocuse d'Or sem fór fram í Þrándheimi í Noregi í mars síðastliðinn. Sindri stóð sig með glæsibrag og fór áfram í keppninni en alls 20 þjóðir tóku þátt í undankeppninni og 10 efstu keppendur komust í úrslitakeppnina. Sindri mun því keppa í úrslitum Bocuse d'Or í Lyon í Frakklandi í janúar á næsta ári.

Bocuse d'Or er það stærsta í keppnismatreiðslu sem er í gangi í heiminum í dag. Það er búinn að vera draumur minn lengi að fara í þessa keppni. Það má segja að ég hafi stefnt að þessu markmiði síðan ég byrjaði að læra kokkinn árið 2012,“ segir Sindri. Hann byrjaði að læra kokkinn í Perlunni en í dag er Sindri einn af eigendum veisluþjónustunnar Flóran.

Matreiddu tvo rétti

Undankeppni Bocuse d'Or hefur verið haldin á ýmsum mismunandi stöðum síðustu ár en lokakeppnin er ávallt haldin í Lyon í Frakklandi. Sindri segir að Norðmenn hafi lagt mikið í Bocuse d'Or og keppnin var hin glæsilegasta í alla staði. „Þetta var mjög glæsilegt allt saman og það er eiginlega erfitt að lýsa því. Þessi keppni var í allt öðrum gæðaflokki en maður er vanur. Það var allt fyrsta flokks og mjög vel heppnað hjá Norðmönnum. Keppnin var hörð og spennandi eins og búast mátti við. Það voru 20 þátttökulönd og aðeins 10 efstu komust áfram. Ég var að sjálfsögðu gríðarlega ánægður að komast áfram í úrslit keppninnar. Það var alltaf ætlun mín að komast í úrslit og markmiðið heppnaðist því fullkomlega,“ segir Sindri ánægður.

Aðspurður hvaða rétti keppendur þurftu að búa til segir Sindri það hafa verið tvo rétti með fyrirfram ákveðnu hráefni. „Við þurfum að gera tvo rétti saman úr hreindýra innralæri, skanka og tungu og ákavíti og svo þurfti að nota þorsk og hörpuskel sem var borinn fram á fati. Ég var ánægður með hvernig mér tókst til og greinilega dómnefndin líka. Alla vega dugði það til að komast áfram i úrslitin.“

Æfði vel í fullkomnu eldhúsi hjá Expert

Sindri segist hafa lagt gríðarlega mikla vinna í undirbúninginn fyrir Bocuse d'Or. „Ég æfði mikið í glænýrri aðstöðu hjá Expert á Höfðabakka 7. Þar hefur verið komið upp frábærri aðstöðu með afar fullkomnu eldhúsi, eiginlega rými sem er með gleri þannig að fólk getur fylgst með hvað ég er að gera í eldhúsinu. Þetta er geggjuð aðstaða og ég er þakklátur Expert hvað fyrirtækið hefur gert mikið og stutt mig vel fyrir Bocuse d'Or,“ segir Sindri og bætir við að eldhúsið góða verði aftur meira og minna heimili hans þegar undirbúningurinn hefst fyrir aðalkeppnina í Lyon. „Ég mun líklega búa í Expert eldhúsinu meira og minna þegar undirbúningurinn hefst fyrir alvöru í lok sumars. Ætli ég verði ekki að láta koma fyrir rúmi þar til að geta lagt mig," segir hann og hlær.

Hvernig leggst aðalkeppnin í þig?

„Hún leggst vel í mig og ég tek mikinn lærdóm af þessari keppni í Þrándheimi með mér til Lyon. Ég er rosalega spenntur fyrir þessu. Þetta verður án efa hörkukeppni og það stærsta sem ég hef tekist á við á ferlinum."

Sindri stóð sig framúrskarandi vel í undanúrslitunum og ætlar sér …
Sindri stóð sig framúrskarandi vel í undanúrslitunum og ætlar sér alla leið í aðalkeppninni. Ljósmynd/Aðsend

Á námskeiði í eftirréttum í New York

Þú varst í New York um daginn. Hvað varstu að gera þar?

„Ég fór í boði Garra à námskeið hjá Romon Morato sem er einn fremsti eftirréttarkokkur í heimi. Við fórum þrír saman sem höfðum unnið keppnina Eftirréttur ársins hérna á Íslandi og voru þetta í rauninni verðlaun fyrir sigurinn. Þetta var mikill og góður skóli og ég lærði mjög mikið á námskeiðinu. Það var ekki verra að geta verið í New York því það er frábær borg,“ segir Sindri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka