Svona lítur draumavikumatseðill eiginmanns Höllu út 

Björn Skúlason heilsukokkur á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni.
Björn Skúlason heilsukokkur á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Björn Skúlason heilsukokkur og matgæðingur með meiru á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Hann er giftur Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda og stendur í ströngu þessa daga í kosningabaráttunni með sinni konu. Gaman er að geta þess að þau fagna 20 ára brúðkaupsafmæli 29. maí næstkomandi.

Björn er fæddur í Reykjavík en uppalinn í Grindavík. „Pabbi minn kemur úr Meðallandinu í Vestur Skaftafellssýslu og mamma frá Berufirði. Ég ólst upp við að vinna í fiski frá 12 ára aldri og hef aldrei verið hræddur við að bretta upp ermarnar og vinna erfiðisvinnu. Ég er mikill íþróttamaður, spilaði fótbolta, körfubolta, handbolta, blak, golf og bara allar þær íþróttir sem í boði voru þegar ég var að alast upp, en endaði á því að velja knattspyrnu og lék lengstum með Grindavík ásamt einu sumri með KR. Í dag stunda ég CrossFit af miklu kappi og endaði til dæmis efstur á íslandi í mínum flokki (50-54 ára) í hinni árlega CrossFit Open keppni og er númer 207 í heiminum í mínum aldursflokki,“ segir Björn galvaskur.

Brennur fyrir heilsu, hreyfingu og almennri lýðheilsu

Björn fór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík, í framhaldinu lærði hann viðskiptafræði í Bandaríkjunum, stjórnunarsálfræði við University of Essex í Bretlandi og að lokum lærði hann heilsukokkinn í New York. „Eftir kokkanámið kenndi ég meðal annars fjölmörg námskeið hér á Íslandi sem hétu Karlar sem kokka og ég er enn að fá póst frá eiginkonum manna sem komu á námskeiðið að ég hafi bjargað sambandi þeirra með því að kenna þeim undirstöður í eldhúsinu,“ segir Björn og hlær. Björn brennur fyrir heilsu, hreyfingu og almennri lýðheilsu. „Ég vil hjálpa fólki að elda hollan og góðan mat og tel mataræði vera grunninn að góðri heilsu. Í dag rek ég fyrirtæki sem framleiðir og selur Collagen bætiefni á Bandaríkjamarkaði.“

Saman eiga Björn og Halla tvö börn, Tómas Bjart, fæddur 2001 en hann stundar nám í viðskiptafræði við Stony Brook háskólann í New York fylki, og Auði Ínu, fædd 2003 sem stundar nú nám við Hunter College í New York borg, en hún er að læra sálfræði. Fjölskyldan nýtur þess að eiga saman gæðastundir við matarborðið og borða ljúffengan mat. Björn sér yfirleitt um matreiðsluna og elskar fátt meira en að gleðja sitt fólk með kræsingum sem hitta í mark.

Óhræddur við að prófa mig áfram

„Ég lærði það í kokkaskólanum sem ég var í að vera óhræddur við að prófa mig áfram. Ég hef aldrei notast við uppskriftir og bestu réttir sem ég hef búið til hafa oft komið til þegar ég átti ekki eitthvað hráefni sem ég ætlaði að nota í réttinn og þurfti að hugsa hvað annað gæti komið í staðinn. Treystið bragðskyninu ykkar, þið þekkir það best hvað ykkur finnst gott, og prófið ykkur áfram,“ segir Björn að lokum.

Ef tími gefst þessa vikuna er þetta draumavikumatseðillinn hans Björns þar sem fjölbreyttur, hollur og góður matur er í forgrunni.

Mánudagur – Kínóskál með bökuðu grænmeti og hnetusósu

Girnileg ská með kínóa-salati að betri gerðinni.
Girnileg ská með kínóa-salati að betri gerðinni. Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

Þriðjudagur – Bleikjutaco með mangó-chilisalsa

Guðdómlega gott taco með bleikju og mangó-chilisalsa.
Guðdómlega gott taco með bleikju og mangó-chilisalsa. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

Miðvikudagur – Thai-tófukarrí

Thai tófu-karrí sem bragð er af.
Thai tófu-karrí sem bragð er af. mbl.is/Golli

Fimmtudagur – Grillaður kjúklingur með fennel og sítrónu

Grillaður kjúklingur með fennel og sítrónu bragðast vel.
Grillaður kjúklingur með fennel og sítrónu bragðast vel. Ljósmynd/Aðsend

Föstudagur – Frumleg föstudagspítsa að hætti Snorra

Föstudagspítsan klár.
Föstudagspítsan klár. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Laugardagur – Lambafille með rjómalagaðri sveppasósu

Fátt toppar íslenskt lambafille.
Fátt toppar íslenskt lambafille. mbl.is/MS

Sunnudagur – Íslensk kjötsúpa

Hin íslenska kjötsúpa.
Hin íslenska kjötsúpa. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert