Byrjuðu að rækta kryddjurtir árið 2013

Sigurdís Edda Jóhannesdóttir, alla jafna kölluð Edda, og eiginmaður hennar …
Sigurdís Edda Jóhannesdóttir, alla jafna kölluð Edda, og eiginmaður hennar Gunnar Þorgeirsson garðyrkjufræðingur reka garðyrkjustöðina Ártanga í Grímsnesi þar sem þau rækta kryddjurtir. Ljósmynd/Kristín Linda Sveinsdóttir

Hjónin Sigurdís Edda Jóhannesdóttir, alla jafna kölluð Edda, og Gunnar Þorgeirsson garðyrkjufræðingur reka garðyrkjustöðina Ártanga í Grímsnesi þar sem þau rækta kryddjurtir. Stöðin var reist árið 1986 á landi sem áður tilheyrði Ormsstöðum, en þar hefur Edda búið frá 7 ára aldri.

Ferskar kryddjurtir eru moldríkar af vítamínum, trefjum, prótíni og andoxunarefnum auk þess sem þær lyfta hvers kyns kjöt- og fiskréttum á æðra plan. Þær dafna vel og lengi í eldhúsglugganum á milli máltíða og eru kærkomnar í salatið, súpuna, sósuna, pottrétti, nú eða teblönduna. Mikil fengur er í því að ræktaðar séu kryddjurtir á Íslandi og neytendur geti því fengið þær ferskar í raun beint frá býli.

Heita vatnið kom í góðar þarfir

Það má segja að örlögin hafi valdið því að hjónin ákváðu að byggja gróðurhús og fara í ræktun og eitt leiddi að öðru og nú er Ártangi orðin ræktunarstöð þar sem kryddjurtirnar blómstra. Þegar borað var eftir heitu vatni á Ormsstöðum, sem átti að nota til húshitunar, kom í ljós mun meira vatn en talið var. Í ársbyrjun 1986 byggðu þau Gunnar og Edda gróðurhús og þá kom heita vatnið í góðar þarfir við upphitun. Þau voru nýkomin heim frá Danmörku, þar sem Gunnar stundaði nám í garðyrkju.

„Fyrsta gróðurhúsið var aðeins 200 fermetrar og í því ræktuðum við pottaplöntur. Smám saman stækkaði garðyrkjustöðin og þegar umfangið var mest ræktuðu þau 300 til 400 tegundir af pottaplöntum í 3000 fermetrum og sem til að mynda vöru seld í Blómavali. Árið 2002 bættum við laukblómum og byggðu 500 fermetra kælirými við stöðina,“ segir Edda.

Rækta 17 tegundir af kryddjurtum

Árið 2013 ákváðu þau að hætta að rækta pottaplöntur. „Við ákváðum að snúa okkur að kryddjurtum. Nú ræktum við 17 tegundir af kryddjurtum í Ártanga, en mest er ræktað af basilíku, kóríander, grænni myntu, steinselju, rósmarín og timian.“

Ferskar kryddjurtir heilla.
Ferskar kryddjurtir heilla. Ljósmynd/Unsplash

Gunnar og Edda fóru til Noregs áður en kryddplönturæktunin hófst og hafa nýtt sér reynslu Norðmanna við ræktunina. „Ártangi er vistvæn stöð og lögð áhersla á að endurnýta vatn, áburð og mold. Þá er lífrænum vörnum beitt við ræktunina,“ segir Edda.

Tíu starfsmenn vinna í Ártanga þegar mest er að gera. Tvær dætur þeirra Gunnars og Eddu starfa einnig við stöðina, en sonur þeirra, sem er verkfræðingur hefur verið liðtækur þegar tæknimálin eru annars vegar.

Næstu daga og vikur mun birtast fróðleikur um kryddjurtirnar á matarvefnum en fátt er betra en ferskar kryddjurtir þegar ljúffenga máltíð skal gjöra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert