Staður, stund og stemning ráða för

Vínsérfræðingurinn Þorleifur „Tolli“ Sigurbjörnsson framreiðslumaður var Íslandsmeistari vínþjóna 2016.
Vínsérfræðingurinn Þorleifur „Tolli“ Sigurbjörnsson framreiðslumaður var Íslandsmeistari vínþjóna 2016. Ljósmynd/Aðsend

Framleiðslumaðurinn Þorleifur Sigurbjörnsson, kallaður Tolli, hefur gegnt öllum störfum í stjórn Vínþjónasamtaka Íslands frá 2001 og er nú bæði ritari og gjaldkeri samtakanna. „Ég var dreginn inn í stjórnina á sínum tíma og hef verið þar síðan nema hvað ég tók mér frí í fjögur eða fimm ár frá þessum störfum.“

Tolli lærði og vann í nokkur ár á veitingastaðnum í Perlunni. Hann útskrifaðist sem framleiðslumaður 1998 og opnaði ásamt öðrum veitingastaðinn Sommelier Brasserie á Hverfisgötu árið 2000. „Ég seldi minn hlut eftir eitt ár og fór aftur í Perluna.“ 2009 byrjaði hann að vinna hjá vín- og snyrtivöruinnflutningsfyrirtækinu Forvali en frá 2011 hefur hann starfað hjá víninnflutningsfyrirtækinu Globus, þar sem hann er m.a. vefstjóri. Hann hefur lengi haft áhuga á víni og víða sótt sér menntun á því sviði. „Franskt vín hefur heillað mig mest en ég á mér ekkert uppáhaldsvín heldur ráða staður, stund og stemning för hverju sinni.“

Gyllta glasið í 20 ár

Vínþjónasamtökin hafa staðið fyrir árlegri keppni um Gyllta glasið frá 2005. Þar leggja vínsmakkarar mat sitt í blindsmökkun á valdar tegundir af rauðvíni, hvítvíni og rósavíni og í kjölfarið eru viðkomandi árgangar besta vínsins merktir í Vínbúðunum með merki Gyllta glassins.

Tolli segir að keppnin hafi fyrst verið haldin í fjáröflunarskyni fyrir Norðurlandakeppni hérlendis. „Við vildum gera eitthvað frekar en að reyna að sníkja styrki upp í kostnað,“ rifjar hann upp. „Úr varð að halda vínsmökkunarkeppni, hún gekk vel og hefur verið fastur liður í starfseminni síðan. Starfsmenn Vínbúðanna vita hvað miðarnir merkja og sumir kaupendur fara eftir þeim.“

Hátt í 200 víntegundir eru metnar á hverju ári og er þeim skipt í tvo hluta. Í fyrri hluta keppninnar í ár, sem fór fram um miðjan mánuðinn, var rauðvín og hvítvín frá svæðum sunnan við miðbaug og Norður-Ameríku smakkað auk rósavíns hvaðanæva úr heiminum.

Seinni hluti keppninnar, smökkun víns frá „gamla“ heiminum, frá löndum norðan við miðbaug fyrir utan Norður-Ameríku, verður í haust. „Skiptingin tekur mið af því hvenær uppskeran er og hvenær vínið kemur á markað, nema hvað Norður-Ameríka er sett með „nýja“ heiminum til að jafna fjölda víntegunda sem smakkaðar eru, en þær koma flestar frá Evrópu,“ útskýrir Tolli. „Fimmtán til tuttugu fastir smakkarar koma að hverri smökkun og hver smakkari dæmir ekki meira en 70 tegundir í hverri keppni.“

Tolli er þekktur fyrir sitt sérsvið.
Tolli er þekktur fyrir sitt sérsvið. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert