Svona ætla þau að njóta dagsins

Marentza Poulsen, Tómas Þóroddsson, Unnur Pálmarsdóttir og Berglind Guðmundsdóttir ætla …
Marentza Poulsen, Tómas Þóroddsson, Unnur Pálmarsdóttir og Berglind Guðmundsdóttir ætla öll að halda daginn hátíðlegan og gera sér glaðan dag. Samsett mynd

Nú er kjördagur runninn upp í allri sinni dýrð og væntanlega bjóða flestir frambjóðendur til forseta Íslands upp á kosningakaffihlaðborð í dag þar sem kjósendur geta gædd sér á þjóðlegum krásum eftir að hafa mætt á kjörstað.

Flestir halda daginn hátíðlegan, mæta prúðbúnir og kjörstað að nýta kosningaréttinn og gera vel við sig í tilefni kjörsins. Undirrituð spjallaði við nokkrar kjósendur sem allir eiga það sameiginlegt að vera miklir matgæðingar og matur spilar stórt hlutverk í þeirra lífi þegar mikið liggur við eins og kjördagur og fékk að vita dagskrá dagsins.

Marentza Poulsen smurbrauðsdrotting Íslands.
Marentza Poulsen smurbrauðsdrotting Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Marentza býður upp á sérstaka kosningaköku

Marentza Poulsen smurbrauðsdrottning Íslendinga heldur hátíðlega upp á daginn og býður meðal annars upp á sérstaka kosningaköku sem hún baka í tilefni dagsins á Klambra Bistro í dag.

„Við hjónin munum klæða okkur upp og mæta á kjörstað  það er eitthvað svo hátíðleg við það og spennandi. Mér finnst alltaf gaman að mæta á kjörstað þar hittir maður fullt af fólki , það er stemning og þannig á það að vera.“

Ætlar þú að mæta í kosn­ingakaffi?

„Ég hef nú ekki mætt í kaffihlaðborð á kosningadaginn en að þessu sinni verð ég með  sérstaka kosningaköku sem ég baka og býð upp á  á Klömbrum Bistro það verður hægt fá kaffi og kosningakökuna á góðu verði um leið og þú mætir á kjörstað þar sem það er hægt að kjósa á Kjarvalsstöðum í dag.“

Ertu bú­inn að ákveða mat­seðil­inn fyr­ir kvöld­ið?

„Ég verð með grillaðan humar með góðri kryddjurtasósu og fersku salati og í eftirrétt verð eg með sítrónu tart, ferskt og sumarlegt.“

Á að mæta í kosn­ingapartí?

 „Já við munum örugglega eyða kvöldinu með góðum vinum  og fjölskyldu,“ segir Marentza að lokum.

Tómas Þóroddsson veitingamaður á Kaffi Krús.
Tómas Þóroddsson veitingamaður á Kaffi Krús. Ljósmynd/Aðsend

Tommi Krús myndi mæta ríðandi á kjörstað ef hann væri meiri bóndi

Tómas Þóroddsson veitingamaður, alla jafna kallaður Tommi Krús, heldur daginn hátíðlegan og mætir prúðbúinn á kjörstað. „Ég er búsettur í Flóahrepp rétt fyrir utan Selfoss og kýs þá í Félagslundi. Ef ég væri aðeins meiri bóndi þá myndi ég að sjálfsögðu koma ríðandi á kjörstað og vonandi læri ég það einn daginn,“ segir Tommi og hlær.

Ætlar þú að mæta í kosningakaffi í dag?

„Já, það hefur hefð að mæta snemma í kosningakaffi og ég tek alltaf með mér kökur fyrir hlaðborðið.“

Hvað finnst þér mest heillandi á kosningakaffihlaðborðið?

„Brauðtertur, heitir réttir, súkkulaðikaka og svo er alltaf extra næs ef það eru heima steiktar kleinur og pönnukökur.“

Ertu búinn að ákveða matseðilinn fyrir kvöldverðinn í kvöld?

„Ég fer alltaf út að borða á kjördag, verð mikil félagsvera á kjördag. Tryggvaskáli verður fyrir valinu í ár.“

Á að mæta í kosningapartí?

„Já, stefni að því en þarf að fara snemma heim, þar sem ég er vinna á sunnudagsmorgun.“

Unnur Pálmarsdóttir einkaþjálfari.
Unnur Pálmarsdóttir einkaþjálfari. mbl.is/Árni Sæberg

Ljúffeng hjónabandssæla borin fram rjóma eða vanilluís heillar Unni

Unnur Pálmarsdóttir einkaþjálfari með meiru sem starfar meðal annars Aventura ferðaskrifstofu sem stendur fyrir heilsu-og fræðsluferðum hugsar ávallt um heilsuna á sama tíma þegar á að njóta og gera vel við sig á dögum sem þessum.

„Ég hvet alla landsmenn til að njóta þessa fallega dags og stunda hreyfingu. Fara út að ganga, stunda jóga, teygjur, synda eða dansa. Gera sem hentar hverjum og einum.  Verum góð við hvort annað og sýnum hvort öðru virðingu og kærleik,“ segir Unnur með bros á vör.

Ætlar þú að mæta í kosningakaffi? 

„Já, við fjölskyldan gerum það. Njótum dagsins og það eru auðvitað forréttindi að búa við lýðræði og kjósa leiðtoga vor. Svo það er gaman að kíkja í kosningakaffi og upplifa stemninguna sem myndast á þessum fallega degi. Hitta fólk og það er ávallt hátíðlegt yfirbragð yfir þessum góða degi.“

Hvað finnst þér mest heillandi á kosningakaffihlaðborðið? 

„Það eru pönnukökur, ljúffeng hjónabandssæla með rjóma eða vanilluís,  bláber, hindber og jarðarber með súkkulaði og auðvitað heitur og ljúffengur aspasréttur  Getum við beðið um meira? Nú til dags er gott að hafa ferskt og hollt kosninga kaffihlaðborð og þá á ég við að bera fram t.d.  grískt jógúrt, hrökkbrauð, múslí og ávexti með sætu kökunum. Það jafnar út sykurlöngunina.“

Ertu búin að ákveða matseðilinn fyrir kvöldið?

„Við verðum með uppáhaldsréttinn okkar sem er ofnbakaður mangó-kjúklingaréttur með grænmeti, hrísgrjónum og hvítlauksbrauði.  Sonurinn fær heimagerða pítsu ef hann vill eða þjóðarréttinn okkar sem er pylsa að sjálfsögðu. Í eftirrétt er ís með heitri súkkulaðisósu og jarðarberjum.“

Á að mæta í kosningapartí?

„Nei að vísu ekki. En höfum það notalegt heima og fylgjumst spennt með  kosningartölunum.“

Berglind Guðmundsdóttir gleðigjafi.
Berglind Guðmundsdóttir gleðigjafi. Ljósmynd/Aðsend

Sátt með upprúllaðar pönnukökur með sykri

Berglind Guðmundsdóttir sælkera og gleðigjafi með meiru kann að lifa lífinu og njóta. Hún er þekkt fyrir sínar ljúffengur kræsingar og skemmtilegu boð og hún ætlar að eiga góðan dag með vinum sínum.

„Ég vil endilega minna alla á að nýta kosningaréttinn og mæta á kjörstað. Að fylgja sínu hjarta og kjósa eftir sinni sannfæringu. Að bera virðingu fyrir skoðunum annarra og hafa gaman. Það stefnir í virkilega spennandi kosningar sem gerir kosningavökuna enn skemmtilegri,“ segir Berglind.

Ætlar þú að mæta í kosningakaffi?

„Já, það gæti bara vel verið. Að minnsta kosti verður farið í sitt fínasta púss og mætt á kjörstað.“

Hvað finnst þér mest heillandi á kosningakaffihlaðborðið?

„Það fyrsta sem mér dettur í hug er eitthvað svona þjóðlegt. Íslensku pönnukökurnar eru til dæmis alltaf pottþéttar myndi ég halda. Ég á enn eftir að finna þann einstakling sem elskar þær ekki. Ég væri að minnsta kosti voða sátt við upprúllaðar pönnsur með sykri og gott kaffi. Einfalda og góða lífið er best.“

Ertu búin að ákveða matseðilinn fyrir kvöldið?

„Vinahópurinn ætlar að hittast og borða saman. Vinkona mín ætlar að sjá um aðalréttinn sem ég held að verði eitthvað sem hægt er að skella á grillið. Ég ætla að taka að mér að útbúa eitthvað girnilegt salat og koma með osta. Svo tek með mér rose 0% búbblurnar frá Oddbird til að skála í sem eru mitt uppáhald. Ein vinkonan ætlar að skella í tiramísú og svo er nammi og snakk og allskonar fínerí í boði. Við munum að minnsta kosti ekki svelta,“ segir Berglind og hlær.

Á að mæta í kosningapartí?

„Stefnan er bara sett á að njóta félagsskap vinanna og eiga gott kvöld með þeim. Okkar kostningapartí. Svo er bara að sjá hversu lengi ég næ að vaka. Ég er sko best fyrir miðnætti. En ég er vandræðalega spennt fyrir þessu kvöldi því það er algjörlega óljóst hver verður næsti forseti Íslands og það gerir þetta skemmtilegra. Oftast er ég samt sofnuð þegar svona úrslit liggja fyrir og ekki viss um að breyting verði á í ár. En hver veit, kannski verður smá kraftur í kellu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert