BBQ-hamborgari með grilluðum ananas

Guðdómlegur BBQ-hamborgari með grilluðum ananas og heimagerðri BBQ-sósu er uppáhaldshamborgarinn …
Guðdómlegur BBQ-hamborgari með grilluðum ananas og heimagerðri BBQ-sósu er uppáhaldshamborgarinn hennar Ólafar. Borgarann ber hún fram með alvöru frönskum og mísó-majónesi. mbl.is/Eyþór Árnason

Í tilefni þess að það stefnir í kosningagrillpartí víða um land um helgina og sumarið er komið deilir Ólöf Ólafsdóttir, landsliðskokkur og konditor, betur þekkt sem eftirréttadrottningin, með lesendum Morgunblaðsins uppskriftinni að sínum uppáhaldshamborgara.

Ólöf ætti að vera orðin landsmönnum vel kunn fyrir þátttöku sína í íslenska kokkalandsliðinu en landsliðið vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem haldnir voru í Stuttgart í febrúar síðastliðnum. Ólöf gaf einnig út bókina Ómótstæðilegir eftirréttir fyrir jólin þar sem hún deilir með lesendum uppáhaldsuppskriftum að eftirréttum, góðum ráðum fyrir bakstur og öðrum fróðleiksmolum.

Eftirréttadrottningin Ólöf Ólafsdóttir landsliðskokkur og konditor veit fátt skemmtilegra en …
Eftirréttadrottningin Ólöf Ólafsdóttir landsliðskokkur og konditor veit fátt skemmtilegra en að grilla í góðra vina hópi á sumrin. mbl.is/Eyþór Árnason

Sumarið er tíminn

Ólöf veit fátt skemmtilegra en að borða ljúffengan mat í góðum félagsskap. „Sumarið er tíminn til að borða góðan mat og það er ekkert jafn sumarlegt eins og að grilla úti með góðum vinum. Þessi BBQ-hamborgari er í miklu uppáhaldi hjá mér en það sem gerir hann svona sumarlegan er grillaði ananasinn með heimagerðu BBQ-sósunni. Þennan innblástur fékk ég eftir að fara í grill hjá mjög góðum vini og fékk ég að deila guðdómlegu BBQ-sósunni hans sem er sú allra besta,“ segir Ólöf. „Síðan geri ég mínar eigin alvöru franskar kartöflur og ber þær fram með mísó-majónesi sem er guðdómlega gott.“

BBQ-hamborgari með ananas

Fyrir 4

  • 480 g nautahakk
  • 1 stk. egg
  • 250 g brauðraspur
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Blandið öllu hráefninu vel saman og skiptið í hakkblöndunni í fjórar jafnar kúlur.
  2. Vigtið og miðið við að hver kúla sé um 125 g að þyngd sem er passleg stærð fyrir hamborgara. Mótið borgara með höndunum eða með hamborgarapressu ef þið eigið hana til.
  3. Grillið hamborgarana á vel heitu grilli og þegar þeir eru nánast tilbúnir setjið þá tvær sneiðar af ostinum Tindi á hvern borgara.
  4. Hitið brauðið á grillinu, best að setja stutta stund á grillið og svo á grind ef hún er til staðar.

Meðlæti á hamborgarana

  • 4 stk. hamborgarabrauð að eigin vali
  • 8 sneiðar Tindur
  • grillaður ananas
  • (sjá uppskrift fyrir neðan)
  • heimagerð BBQ-sósa a la Óli Pet. (sjá uppskrift fyrir neðan)
  • salat að eigin vali ef vill

Grillaður ananas

  • 1 stk. ferskur ananas

Aðferð:

  1. Skerið ananasinn í ½ cm sneiðar og grillið.

Heimagerð BBQ-sósa a la Óli Pet.

  • 1 stk. laukur
  • 2 stk. hvítlaukur
  • 4 g cayennepipar
  • 5 g fennelfræ
  • 5 g kóríanderfræ
  • 4 g svartur pipar, heill
  • 13 g salt
  • 125 g epladjús
  • 125 g eplaedik
  • 125 g sætt sinnep
  • 125 g púðursykur
  • 125 g apríkósumarmelaði
  • 300 g tómatsósa

Aðferð:

  1. Setjið lauk, hvítlauk, cayennepipar, fennelfræ, kóríanderfræ, svartan heilpipar og salt saman í pott og steikið við vægan hita.
  2. Svitið eins og sagt er á kokkamáli.
  3. Bætið síðan epladjúsi og eplaediki saman við og sjóðið niður.
  4. Bætið loks restinni við; sinnepi, púðursykri, apríkósumarmelaði og tómatsósu, og sjóðið niður í þykka sósu.

Samsetning

  1. Þegar búið er að grilla hamborgarana, hita brauðið aðeins á grillinu, grilla ananasinn og gera BBQ-sósuna er lag að setja borgarann saman.
  2. Hver og einn getur auðvitað leikið sér með samsetninguna en best er að setja smá sósu á botnbrauðið ásamt salati að eigin vali, síðan hamborgarann og grillaða ananasinn.
  3. Síðan er gott að setja meiri BBQ-sósu ofan á ananasinn og loka hamborgaranum með brauðlokinu.
  4. Berið BBQ-hamborgarann fram með alvöru heimagerðum frönskum ásamt mísó-majónesi og njótið vel.

Alvöru franskar

  • 2 stk. stórar bökunarkartöflur
  • ólífuolía eftir smekk
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Skerið tvær stórar bökunarkartöflur í báta, dressið þær í ólífuolíu og salti og pipar.
  3. Leggið bökunarpappír á ofnplötu og setjið kartöflubátana á.
  4. Setjið inn í ofn og bakið í 15-20 mínútur eða þar til þær eru orðnar gullinbrúnar.

Mísó-majónes

  • 100 g japanskt majó
  • 1 tsk. ljóst mísó

Aðferð:

  1. Setjið saman í skál og hrærið vel saman.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert