Síðastliðinn fimmtudag útskrifuðust 13 bakarar með sveinspróf í bakaraiðn og hafa því fengið réttindi til að kalla sig bakara. Þetta er stór áfangi fyrir greinina en aldrei hafa fleiri þreytt sveinspróf síðan árið 2000 eða í aldarfjórðung. Hópurinn samanstendur af 7 stelpum og 6 strákum. Bakaraiðnin hefur lengi verið karlæg, en þessi fjölgun bendir til jákvæðrar þróunar.
Hótel- og matvælaskólinn hefur fundið fyrir auknum áhuga ungs fólks á bakstri. Skráning í bakaranámið fyrir komandi haust hefur nú þegar farið fram úr væntingum en ekki er endanlega búið að ganga frá skráningu fyrir næsta skólaár.
Hver er skýringin á þessari fjölgun?
„Erfitt er að segja með vissu, en augljóst er að skýringin er jákvæð. Samfélagsmiðlar hafa einnig spilað stórt hlutverk í að kynna bakaraiðnina fyrir ungu fólki á nýjan hátt,“ segir Árni Þorvarðarson fagstjóri í bakaraiðn hjá Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi.
„Það er mikilvægt að námið haldi í við tíðarandann en einnig að gleyma ekki sögunni og klassískum aðferðum. Með áframhaldandi áhuga ungs fólks er von á fleiri ungum bökurum sem leita sér af tækifærum bæði innanlands og erlendis. Þetta styrkir greinina og gefur nemendum verðmæta reynslu,“ bætir Árni við.
„Baksturinn er því ekki bara vandræði, heldur tækifæri til að skapa ljúffenga og skapandi framtíð fyrir nýja kynslóð bakara. Með áherslu á nýsköpun, hefðbundnar aðferðir og alþjóðlegan metnað, eru þessir nýju bakarar tilbúnir að mæta kröfum framtíðarinnar,“ segir Árni að lokum.
Eftirtaldir bakaranemar luku sveinsprófi og hafa nú fengið titilinn bakarar:
Birgir Fannar Sigurðarson – Almar bakari
Darri Dór Orrason – Reynir bakari
Finnur Guðberg Ívarsson Prigge – Kökulist/Bláa lónið
Guðbjörg Ósk Andreasen Gunnarsdóttir – Brikk
Gunnar Jökull Hjaltason – Mosfellsbakarí
Hekla Guðrún Þrastardóttir – Hygge
Karen Guðmundsdóttir – Gulli Arnar
Lovísa Þórey Björgvinsdóttir – Bæjarbakarí
Matthildur Ósk Guðbjörnsdóttir – Gulli Arnar
Mikael Sævarsson – Kalla bakarí
Óli Steinn Steinþórsson – Gæðabakstur
Pálmi Hrafn Gunnarsson – Ikea
Sunneva Kristjánsdóttir – Sandholt
„Þessi fjölgun bakara gefur góð fyrirheit um framtíðina og vekur vonir um enn meiri vöxt og framþróun í bakaraiðninni,“ segir Sigurður Már Guðjónsson formaður LABAK og formaður sveinsprófsnefndarinnar og bætir við glæsileg sveinspróf eins og þessi boði bjarta framtíð fyrir stéttina.
Matarvefurinn óskar nýútskrifuðum bökurum til hamingju með sveinsprófið.
Sjáið glæsiegu kræsingarnar sem nýútskrifuðu bakararnir töfruðu fram á sveinsprófinu.