Grásleppubrauðterta skreytt með grásleppuhrognum sló í gegn

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir matreiðslumeistari og snillingur í brauðtertugerð galdraði fram …
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir matreiðslumeistari og snillingur í brauðtertugerð galdraði fram þessa dýrðlegu grásleppubrauðtertu og skreytti með grásleppuhrognum og ætum jurtum. Samsett mynd

Sjómannadagshátíðin Grásleppan 2024 fór fram á Bakkafirði laugardaginn 1. júní síðastliðinn með pomp og prakt. Þetta var í annað sinn sem hátíðin var haldin og ætla má að um 200 manns hafi sótt hátíðina í ár. Bæjarbúar lögðust á eitt ásamt framkvæmdanefndinni til þess að gera Grásleppuna sem ánægjulegasta enda má segja að það þurfi heilt þorp til að halda hátíð. Boðið var meðal annars upp á dýrðlega grásleppubrauðtertu sem sló svo sannarlega í gegn sem  kom úr smiðju Fanneyjar Dóru Sigurjónsdóttur matreiðslumeistara og brauðtertu snillings.

Kosningakaffi við Vigtarhúsið

Dagskráin hófst klukkan 14:00 þegar boðið var upp á kosningakaffi við gamla Vigtarhúsið þar sem fiskur var vigtaður árum áður. Inni í Vigtarhúsinu var í gangi sögusýningin Gunnólfsvíkurfjalli er svo blátt þar sem farið er yfir sögu síldarvinnslu á Bakkafirði. Gunnólfsvíkurfjalli blasir við þegar horft er til sjávar frá Bakkafirði og segja má að það marki upphaf Langanessins sem tekur við svo langt sem augað eygir. 

Sjómannadagsleikir og ratleikur

Auk þess sem gestir gátu gætt sér á heimabökuðu bakkelsi og ilmandi kaffi var 9. bekkur grunnskólans á Þórshöfn með sölu á ýmsu góðgæti til þess að fjármagna 10. bekkjar ferðalagið sitt á næsta skólaári og veitingahúsið NorthEast sá um sölu á svalandi drykkjum. Ratleikurinn Finndu grásleppuna sló í gegn þvert á kynslóðir enda þurfti að leysa þrautir þar sem reyndi á styrkleika bæði yngstu þátttakendanna og þeirra sem eldri eru. Farið var í hefðbundna sjómannadagsleiki áður en haldið var í Arnarbúð, gamla samkomuhúsið, sem fylltist fljótt af bæjarbúum og aðkomufólki. 

Ægifögur grásleppubrauðterta skreytt með hrognum og ætum jurtum

Matarupplifun matreiðslufólksins Fanneyjar Dóru og Domenico var svo þungamiðja hátíðarhaldanna. Boðið var upp á grásleppuhrogn, signa grásleppu, grásleppukrókettur, kaldreykta og heitreykta grásleppu og grásleppusnittur en rúsínan í pylsuendanum var grásleppubrauðterta sem skreytt var með grásleppuhrognum og ætum jurtum sem tíndar voru kringum þorpið að morgni hátíðardags. Brauðtertan var ægifögur, tveggja metra löng, og smakkaðist dásamlega að mati flestra gesta sem voru hæstánægðir með að taka þátt í þessum heimsviðburði enda getum við fullyrt með nokkurri vissu að aldrei áður hefur grásleppubrauðterta verið á boðstólum í víðri veröld. 

Fanney Dóra að setja saman brauðtertuna.
Fanney Dóra að setja saman brauðtertuna. Ljósmynd/Aðsend

Léku fyrir dansi og komu fólki á dansgólfið

Valný og spaðadrottningarnar léku fyrir dansi og komu fólki út á dansgólfið í syngjandi sveiflu. Bongótrommuleikarinn Cheick slóst svo í hópinn og var punkturinn yfir i-ið í stórkostlegum flutningi hljómsveitarinnar sem tók marga þekkta slagara við frábærar móttökur hátíðargesta. Sjómannadagshátíðin Grásleppan heppnaðist frábærlega og er komin til að vera. 

Grásleppan er styrkt af Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar og matarupplifunin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. 

Myndaveislan talar sínu máli og lýsir stemningunni vel.

Brauðtertan var ægifögur, tveggja metra löng, og smakkaðist dásamlega að …
Brauðtertan var ægifögur, tveggja metra löng, og smakkaðist dásamlega að mati flestra gesta. Væntanlega heimsviðburður þar sem ekki er vita til þess að áður hafi verið grásleppubrauðterta á boðstólum í víðri veröld. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert