Hér er á ferðinni dýrðleg uppskrift að skonsum með kanil og eplum sem steinliggja með sunnudagskaffinu. Uppskriftin kemur úr smiðju Brynju Döddu Sverrisdóttur ofan úr fjallinu í Kjós, Móberginu fræga og því köllum við skonsurnar Móbergsskonsur. Brynja Dadda hefur ástríðu fyrir bakstrinum og heillar alla sína gesti með sínum ómótstæðilegu kræsingum sem hún ber á borð þegar gesti ber að garði.
„Skonsurnar eru bestar nýjar, ef þær klárast ekki á fyrsta degi er sniðugt að setja þær í frost og taka síðan út þegar á að njóta,“ segir Brynja Dadda. Nú er bara að prófa og njóta.
Móbergsskonsur með eplum og kanil
20 - 24 bollur – allt eftir stærð
- 350 g hveiti
- 2 tsk. kanill
- 1,5 tsk. lyftiduft
- 0,5 tsk. salt
- 90 g kalt smjör
- 100 gr flórsykur
- 1 epli, skorið mjög smátt
- 1,5 dl hreint jógúrt
- 1,5 dl rjómi (eða mjólk)
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.
- Setjið hveiti, kanill, lyftiduft og salt saman í skál og hrærið vel saman. Myljið kalt smjör út í, má raspa út ef vill.
- Setjið síðan sykurinn settur út í og síðan eplabitana.
- Blönduna má hræra í vél en líka alveg hægt að hræra í höndum.
- Bætið loks blautefnum saman við, mjólk og jógúrti og hrærið.
- Ef þið viljið hafa skonsurnar kringlóttar eða þríhyrningslaga, getið þið skellt deiginu á borð og skorið út hringi eða þríhyrnur en Brynju Döddu finnst bara fínt að moka þessu með stórri skeið (eins og salat- eða ísskeið) beint á plötu. Skonsur mega alveg vera grófar og óreglulegar í laginu.
- Ef þið viljið meira sætabrauð má strá örlitlum hrásykri yfir deigið áður en það fer inn í ofn.
- Setjið síðan inn í heitan ofninn og fylgist vel með tímanum. Þegar það eru komnar 15 mínútur til 18 mínútur ættu þær að vera tilbúnar. Stórar bollur/skonsur þurfa alveg 18 mínútur eða meira.
- Takið út þegar liturinn er orðinn fínn á yfirborði og botni. Kælið pínulítið og síðan er bara að bera skonsurnar fram með því sem hugurinn girnist og njóta. Smjör og ostur passar fínt en þarf ekkert endilega.