Helga Magga heilsumarkþjálfi og matarbloggari er sniðugri en flestir þegar kemur að einföldum og skemmtilegum réttum sem allir geta gert. Hún galdraði fram þetta frumlega „Smashburger-salat“ á dögunum en það hefur notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum síðustu vikur í ýmsum útgáfum.
„Þetta salat kom alveg ótrúlega á óvart. Þetta er smá tilbreyting við „smashburger-taco“ réttinn en þetta bragðast nánast eins og Mc-Donalds-sósan passar því líka frábærlega vel á hamborgara,“ segir Helga Magga sem er yfir sig hrifin af þessu salati.
Smashburger-salat
Fyrir 3-4
- 500 g nautahakk
- litlir tómatar
- jöklasalat (iceberg)
- laukur
- súrar gúrkur
- gúrka
- rifinn cheddar-ostur
Aðferð:
- Innihaldið í salatið fer algjörlega eftir smekk en Helga Magga segir að 500 g af nautahakki sé hæfilegt magn fyrir 3-4.
- Byrjið á því að skera kálið fínt niður, síðan laukinn, tómatana, gúrkurnar og súru gúrkurnar.
- Steikið nautahakkið steikt og kryddið til með salti og pipar og smá hamborgarakryddi.
- Látið kólna örlítið á meðan sósan er útbúin (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
- Raðið síðan salati í hverja skál eftir smekk, setjið cheddar-ost yfir og að lokum smashburger-sósuna.
- Berið fram og njótið.
Smashburger-sósa
- 1 dós sýrður rjómi 180 g
- 2 msk. sætt sinnep (gult) 30 g
- 2 msk. tómatsósa 30 g
- 50 g súrar gúrkur, fínt niðurskornar
- Salt, pipar, hvítlauksduft eftir smekk
Aðferð:
- Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið vel saman.
- Uppskriftin er einföld og upplagt er að tvöfalda hana því hún fer hratt.