Þessi gullfallegi og þjóðlegi eftirréttur, Panna Cotta í hátíðarbúningi, kemur úr smiðju Guðrúnar Erlu Guðjónsdóttur, bakara og nema í konditori. Guðrún ætlar að halda upp á þjóðhátíðardaginn, 17. Júní með pomp og prakt og bjóða upp á Panna Cotta eftirréttinn í íslensku fánalitunum í tilefni dagsins.
Guðrún Erla Guðjónsdóttir er hæfileikaríkur bakarí og býr yfir listrænum hæfileikum.
mbl.is/Eyþór Árnason
Guðrún er einstaklega hæfileikarík í sínu fagi og listrænir hæfileikar hennar skína í gegnum baksturinn. Þessi eftirréttur er fallegur fyrir augað og einstakur fyrir bragðlaukana að njóta.
Fallegur eftirréttur í íslensku fánalitunum.
mbl.is/Eyþór Árnason
Panna Cotta í hátíðarbúningi
Fyrir 4
- 30 g vanillusykur
- 480 g rjómi
- Börkur af tveimur límónum
- 4 stk. matarlímsblöð
- 72 g sykur
- 8 g Grand Mariner
- Blár matarlitur
- Hindberjamiðja
- Fersk til skrauts að eigin vali.
Aðferð:
- Leggið matarlímið ofan í kalt vatni.
- Hitið rjómann ásamt límónuberkinum og vanillusykrinum.
- Látið suðuna koma upp, lækkið síðan hitann, og látið malla á mjög lágum hita í 5 mínútur.
- Takið af hitanum eftir 5 mínútur og bætið þá matarlíminu, sykri og Grand Marnier út í og hrærið vel.
- Sigtið massann og setjið til hliðar.
- Hellið bláum matarlit út í ¾ af panna cotta blöndunni og hellið helming í 4 glös.
- Setjið í frysti og leyfið að setjast í 20 mínútur.
- Hellið síðan þunnu lagi af hvítri panna cotta blöndunni og leyfið blöndunni að setjast í 10 mínútur.
- Síðan fer hindberjablandan (sjá uppskrift fyrir neðan) í miðjuna og leyfið henni að setjast í 10 mínútur í frysti.
- Endurtakið síðan með hvítu og bláu panna cotta blöndunni og leyfið þessu að vera í kæli yfir nótt.
- Skreytið með ferskum berjum að vild og njótið.
Hindberja miðja:
- 100 g frosin hindber
- 20 g sykur
- 1 stk. matarlímsblað
Aðferð:
- Leggið matarlím í bleyti, í kalt vatn.
- Hitið frosnu hindberin og sykurinn saman og blandið vel.
- Þegar blandan er búin að sjóða, setjið þá töfrasprota út í til að ná síðustu hindberja klumpunum út.
- Setjið síðan matarlímið út í og leyfið blöndunni að kólna.