Leyndardómsfulla uppskriftin að bestu brauðtertunni 2024

Besta brauðtertan árið 2024 úr Ostaköku- og brauðtertukeppni Kaffi Krús …
Besta brauðtertan árið 2024 úr Ostaköku- og brauðtertukeppni Kaffi Krús og Konungskaffi á Selfossi. Ljósmynd/Ísak Eldjárn

Eins og fram kom á Matarvef mbl.is var haldin Ostaköku- og brauðtertukeppni í nýja miðbænum á Selfossi sem Kaffi Krús og Konungskaffi stóðu fyrir í lok maí. Þetta var fyrsta skiptið sem kaffihúsin halda keppnina saman en undanfarin ár hefur Tómas Þóroddsson, alla jafna kallaður Tom Krús eða Tommi Krús, haldið Ostakökukeppni á vegum Kaffi Krús. Keppnin verður haldin árlega hér eftir og verður stærri og tvískipt svo það eru spennandi tímar fram undan fyrir ostaköku- og brauðtertuaðdáendur.

Hlaðborðið með keppniskræsingunum.
Hlaðborðið með keppniskræsingunum. Ljósmynd/Ísak Eldjárn

Brauðterta með skinku, ananas og sriracha sósu

Jessica Thomasdóttir vann keppnina um bestu brauðtertuna fyrir árið 2024 og má með sanni segja að brauðtertan hennar hafi slegið í gegn. Í umsögn dómnefndar um bestu brauðtertuna segir: „Brauðterta með skinku, sriracha og ananas er öðruvísi og smá sterk. Flott tvist á hefðbundnu skinkusalati og brauðtertan er virkilega falleg. Hreint góðgæti fyrir augað.“

Uppskriftinni af vinningsbrauðtertunni fyrir árið 2024, skinkubrauðtertunni með ananas og sriracha sósa er nú ljóstrað upp hér á Matarvefnum í fyrsta skiptið og nú er lag að leika listina eftir Jessicu og prófa. Einnig er vert að minnast á það að vinningsbrauðtertan er komin í sölu á Konungskaffi svo brauðtertuaðdáendur geta brugði sér þangað og fengið sér smakka á bestu brauðtertu ársins 2024 á Selfossi.

Skinkubrauðterta með ananas og sriracha sósu

Fylling/salatið

  • 500 g Hellmans majónes
  • 100 g sýrður rjómi
  • 2-3 msk. sriracha sósa
  • 3 ananas hringir
  • 400 g skinka
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 10 harðsoðin egg, skorin í eggjaskerar

Aðferð:

  1. Hrærið saman majónes, sýrðan rjóma og sriracha sósu.
  2. Skerið niður skinku, ananas og egg og bætið út í blönduna.
  3. Saltið og piprið eftir smekk.

Annað hráefni:

  • 1 stk. hvítt samlokubrauð

Aðferð:

  1. Skerið skorpuna af brauðsneiðunum og geymið skorpuna til að skreyta með.
  2. Notið hringlagað smelluform 24-26 cm.
  3. Setjið hringinn á kökudisk, þið notið ekki smelliform botninn.
  4. Raðið brauði á botninn og skerið til svo það passið og setjið 1/3 af fyllingunni yfir.
  5. Gerið þetta þrisvar.

Fyrir skreytingu:

  • 200 g majónes
  • Sriracha sósa til að lita majónesið, um það bil 1 tsk.
  • Harðsoðin egg
  • Ananas
  • Radísuspírur
  • Radísur
  • Tómatar
  • Eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug að nota til að skreyta brauðtertuna. Vert að vera með eitthvað litríkt og fallegt.

Aðferð:

  1. Smyrjið litaða majónesið ofan á brauðtertuna og á hliðarnar.
  2. Takið brauðskorpuna og raðið á hliðarnar, líkt og sést á myndinni.
  3. Prófið ykkur áfram og skreytið að vild með því hráefnið sem er á listanum eða veljið það sem ykkur langar til að vera með.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert