Vikumatseðill Sigríðar í miðjum flutningum til Hveragerðis

Sigríður Hjálmarsdóttir með nýskírða barnabarnið, Myrru Maríel, ásamt langafanum séra …
Sigríður Hjálmarsdóttir með nýskírða barnabarnið, Myrru Maríel, ásamt langafanum séra Hjálmari Jónssyni. Sigríður gaf sér tíma til að setja saman vikumatseðil í miðjum flutningum. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Hjálmarsdóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni sem byrjar á þessum sögulega degi, 17. júní, þjóðhátíðardegi Íslendinga og 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar. Seðillinn er með sumarlegu ívafi og uppskriftirnar einfaldar og fljótlegar.

Sigríður hefur haft í nógu að snúast þessa dagana því hún og eiginmaður hennar, Halldór Halldórsson, eru að koma sér fyrir á nýju heimili í Hveragerði en Sigríður tók við starfi menn­ing­ar-, at­vinnu- og markaðsfull­trúa bæjarins í október síðastliðnum. En hún starfaði  áður sem framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju frá árinu 2018.

Skírn og brúðkaup rétt fyrir flutningana

„Við hlökkum til að taka þátt í lífi og starfi í þessum fallega og ört vaxandi bæ sem er fullur af orku og endalausum möguleikum. Svo er ekki verra að losna við að vera fastur í umferð á leiðinni til og frá vinnu alla daga. Við erum búin að eiga yndislegan tíma í Grafarvoginum og enduðum á því að halda mikla veislu þar um síðustu helgi þegar yngsta barnabarnið, Myrra Maríel, var skírð. Foreldrarnir notuðu tækifærið og giftu sig í leiðinni svo ég fékk þann heiður að vera bæði skírnarvottur og svaramaður í sömu athöfn og auðvitað var það afi brúðarinnar sem sá um athöfnina. Þetta var alveg dásamlegur og hamingjuríkur dagur,“ segir Sigríður með bros á vör. „Svo fórum við bara beint í að pakka niður fyrir flutningana. Það verður svo sannarlega góður andi í húsinu fyrir nýja eigendur.“

Lítið fyrir flókna matargerð

Við hjónin erum bara tvö í heimili og lítið fyrir að vera með flókna matargerð. Það er meira svona spari. Reyndar missi ég algjörlega athyglina ef það eru komin mörg innihaldsefni í uppskrift og fer ósjálfrátt að velta fyrir mér hvort þau séu öll nauðsynleg,“ segir Sigríður og hlær.

Sigríður segist ekki vera iðin að baka þessa dagana en hafi gert mikið af því áður fyrr. „Ég var rosalega dugleg að baka hér áður fyrr þegar dætur mínar voru yngri. Ég var alveg búin að sérhæfa mig í pönnukökum og gerbakstri sem féll alltaf í góðan jarðveg en ég hef minna gert af því undanfarin ár. Nú er það maðurinn minn sem bakar meira en ég því hann sér samviskusamlega til þess að alltaf sé til frækex á heimilinu.“

Mikið er lagt upp úr einfaldri eldamennsku á heimilinu og nýta það sem til er að hverju sinni. „Ég á alltaf til grænmeti, ost og egg í ísskápnum og ef eitthvað af þessu vantar þá finnst mér ekkert vera til. Það er til dæmis alveg kjörið að skella í eggjaköku ef það eru til afgangar af mat eða bara grænmeti. Ég gríp mjög gjarnan í eggin ef mig langar í eitthvað fljótlegt og einfalt.“

Nánast allar helgar planaðar

Sumrin eru iðulega annasöm hjá Sigríði. „Sumarið er minn uppáhaldstími og við erum með nánast allar helgar planaðar fram í lok ágúst bæði í leik og starfi. En það er meðal annars hluti af mínu starfi hjá Hveragerðisbæ að halda utan um hátíðahöldin á 17. júní svo það er stór dagur hjá mér í dag og svo er það skipulag fyrir bæjarhátíðina Blómstrandi daga sem verður 15.-18. ágúst þetta árið. Síðan höldum við árlega hið fræga Ögurball í Ögri við Ísafjarðardjúp en maðurinn minn er þaðan úr 7 systkina hópi sem síðustu 25 árin hefur viðhaldið hefðinni um að Ögurball sé árlegur viðburður síðan árið 1926. Ballið hefur stækkað ár frá ári og er nú orðin heil helgi af viðburðum en í fyrra mættu um 700 manns. Halldór á síðan stórafmæli í lok júlí og því verður auðvitað fagnað með viðeigandi hætti,“ segir Sigríður og bætir við að sér þyki ekki leiðinlegt að hafa nóg að gera.

Loks stefnum við á að fara hringinn í kringum landið á mótorhjólunum okkar en í fyrra þurftum við að snúa við vegna veðurs. Vonandi höfum við tíma í það ferðalag í sumar. Annars vil ég vera sem mest utandyra yfir sumarið og fer helst ekki til útlanda á þeim tíma því sumarið er svo stutt að ég vil njóta þess eins og ég get hér heima. Það er fátt eins æðislegt og fallegt íslenskt sumar. Þess vegna hlakka ég einmitt líka til að njóta þess sem Hveragerði hefur upp á að bjóða eins og gönguleiðir, hjólastígar, Varmáin, Reykjadalurinn og hin einstaka sundlaug í Laugaskarði en ég held að hún tilheyri einhverju öðru veðurkerfi en restin af Íslandi því þar er eiginlega alltaf besta veðrið,“ segir Sigríður að lokum.

Hér má sjá vikumatseðilinn hennar Sigríðar sem hinn sumarlegasti og alls ekki flókinn.

Mánudagur – Litríkt salat með appelsínu- og engiferdressingu

„Mánudagur er alveg eðaldagur fyrir litríkt og hreinsandi salat eftir helgina. Ég er voðalega hrifin af engifer í matargerð og það passar sérlega vel í dressingu með salati.“

Þriðjudagur – Lax með bláberja- og rósmarínsósu

„Ég er mjög mikið fyrir lax og elda hann oft með grænmeti, blómkálsmús eða mangó-chutney. Þessi uppskrift er hins vegar svo frábær því ég á alltaf aðalbláber í frysti og nýti þau eins mikið og ég get í matargerð þó megnið af þeim fari í þeytinga. Ég elska að gleyma mér í brekkunum á haustin við að tína ber.“

Miðvikudagur – Matarmikið kjúklingasalat

„Miðvikudagur er alveg kjörinn fyrir gott og matarmikið kjúklingasalat. Þetta er mjög einfalt en sérlega girnilegt.“

Fimmtudagur – Girnileg mexíkósúpa

„Ég er svo agalega ánægð með nýja Vitamix blandarann minn að ég verð að henda í þessa girnilegu mexíkósúpu. Hún er alveg ekta fimmtudagssúpa með smá nachos og sýrðum rjóma.“

Föstudagur – Kimchi-beikonborgara með sterkri sósu

„Að lokinni vinnuviku er fátt betra en að slaka á og grilla eitthvað gott. Alvöru djúsí og spæsí beikonborgari sem leikur við bragðlaukana getur varla klikkað. Svo finnst mér kimchi alveg æðislegt.“

Laugardagur – Lambakonfekt með ristuðu kartöflusalati

„Að sjálfsögðu er grillað á laugardögum í sumar. Þetta lambakonfekt er alveg ekta til að njóta á fallegu laugardagskvöldi með góðu glasi af rauðvíni.“

Sunnudagur – Ofnbökuð langa

„Dásamlega einföld uppskrift sem er alveg kjörin til að keyra sig inn í nýja vinnuviku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert