Föstudagspítsan: Flatbakan frá „Lækninum í eldhúsinu“

Ragnar Freyr Ingvarsson, betur þekktur sem „Læknirinn í eldhúsinu“ býður …
Ragnar Freyr Ingvarsson, betur þekktur sem „Læknirinn í eldhúsinu“ býður upp á föstudagspítsuna að þessu sinni eða öllu heldur flatbökuna. Samsett mynd

Heiður­inn af föstudagspítsunni að þessu sinni á Ragnar Freyr Ingvarsson, betur þekktur sem „Læknirinn í eldhúsinu“. Hann býður lesendum upp á syndsamlega ljúffenga kúrbítsflatböku eins og hann vill kalla hana fremur en pítsu.

„Flatbaka er í raun hin fullkomni matur, að mínu mati. Ég þori að halda því fram vegna þessa að flatbakan (pítsa) er einn vinsælasti skyndibiti í heimi. Það elska eiginlega allir flatbökur, eiginlega allir. Og flatbaka er í algeru uppáhaldi hjá mér, ég gæti hugsað mér pítsu í morgunmat, í hádeginu og á kvöldin. Þetta er máltíð sem ég verð hreinlega ekki leiður á því að borða. Og ég hef sett ótal færslur í loftið um flatbökur á samfélagsmiðlum,“ segir Ragnar sposkur á svip.

Flatbakan er stórvirki 

„Kosturinn við flatbökuna er auðvitað einfaldleikinn. Brotið niður þá er hún lítið annað en brauð með áleggi sem lætur það hljóma eitthvað lítilvægt en það er það auðvitað ekki. Flatbakan er stórvirki með öllum sínum fjölbreytileika.

Ég fékk frænda minn til að hjálpa mér að reisa viðarofn í garðinum heima hjá mér - svona ekta ítalskan viðarofn til að geta bakað flatbökur og svo fékk ég einn stálofn frá Irma, sem er íslenskt fyrirtæki, til að hafa í sumarhúsi foreldra minna við Meðalfellsvatn. Það er óneitanlega viss lífsgæði að elda flatbökur yfir opnum eldi.

Ragnar er með viðarofn í sumarhúsinu sínu við Meðalfellsvatn og …
Ragnar er með viðarofn í sumarhúsinu sínu við Meðalfellsvatn og segir að það séu viss lífsgæði að elda flatbökur yfir eldi. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

En hvað um það, þá er hugmyndin að þessari böku fengin frá yngstu dóttur minni, Ragnhildi Láru. Ég hafði sagt henni frá því að ég hefði verið beðinn um að gera eitthvað nýstárlegt fyrir Matarvef mbl.is. Hún fékk þessa ljómandi hugmynd að kúrbítsflatböku með kúrbítssósu. Og því ekki að prófa - hún tókst alveg ótrúlega vel.“

Flatbakan tilbúin í viðarofninn.
Flatbakan tilbúin í viðarofninn. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
Ómótstæðilega girnilega kúrbítsflatbakan nýkomin úr ofninum í sveitinni.
Ómótstæðilega girnilega kúrbítsflatbakan nýkomin úr ofninum í sveitinni. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

Kúrbítsflatbaka frá Lækninum í eldhúsinu

Kúrbítssósa

  • 1 kúrbítur
  • ½ hvítur laukur
  • 2 hvítlaukrif
  • 75 ml hvítvín
  • 75 ml rjómi
  • Smjör til steikingar
  • Salt og pipar eftir smekk

Fyrir flatbökuna

  • Flatkökudeig, ég nota deigið frá Brauð & Co
  • Mozzarellaostur eftir smekk
  • Hvítlauksolía eftir smekk
  • Kúrbítssneiðar eftir smekk

Aðferð:

  1. Saxið laukinn niður smátt og steikið í smjöri þar til laukurinn er mjúkur og glansandi.
  2. Skerið kúrbítinn niður í sneiðar og svo í bita og steikið með lauknum.
  3. Merjið hvítlaukinn niður og bætið saman við laukinn og kúrbítinn.
  4. Saltið og piprið.
  5. Hellið hvítvíninu yfir og sjóðið upp áfengið og sjóðið svo niður um helming.
  6. Bætið svo rjómanum saman við og sjóðið þar til sósan fer að þykkna.
  7. Setjið svo í matvinnsluvél og maukið vandlega. Sósan verður þykk og rjómakennd.
  8. Fletjið deigið út, mér finnst best að nota súrdeig.
  9. Smyrjið sósunni ofan á deigið.
  10. Sáldrið mozzarellaosti yfir og raðið kúrbítssneiðum yfir flatbökuna.
  11. Sáldrið hvítlauksolíu yfir, saltið og piprið og bakið í funheitum ofni þar til flatbakan er tilbúin.
  12. Njótið með vinum og vandamönnum.
Svo er gott að eiga góðan pítsahníf.
Svo er gott að eiga góðan pítsahníf. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert