Rabarbarasulta úr Móberginu

Móbergs rabarbarasultan hennar Brynju Döddu.
Móbergs rabarbarasultan hennar Brynju Döddu. Samsett mynd

Rabarbari er því miður vannýttur á ansi mörgum heimilum. Hann vex víða og á skilið meiri virðingu fyrir þrautseigju og seiglu. Það er hægt að vinna mikið með rabarbara og í raun miklu meira en fólki grunar. Brynja Dadda Sverrisdóttir sælkeri með meiru sem býr upp á fjalli í Kjósinni í Móberginu er iðin að nýta allt hráefni sem vex og blómstrar í nærumhverfi hennar. Þar vex meðal annars rabarbari sem hún nýtir gjarnan í sultugerð.

Vil hafa hana grófa og dökka

„Fyrst og fremst er að gera sultu þegar maður hefur aðgang að rabarbara. Ég nota 750 grömm af hrásykri á móti 1 kílói af rabarbara. Það er smekksatriði hvað fólk vill hafa hana grófa eða fína. Ég læt suðuna koma upp og lækka undir og leyfi að malla þar til ég er sátt við lit og áferð. Ég vil hafa hana grófa og dökka með góðum bitum, sumir tæta hana alveg fína,“ segir Brynja.

„Ég sett síðan sultuna í hreinar krukkur með loki og hef útbúið fallega merkimiða sem vísa hvaðan sultan er, úr Móberginu okkar hjóna. Notagildið er heilmikið þegar sultan er annars vegar það er endalaust hægt að nota hana í bakstur. Svo er hún svo góð með lambalærinu, sumu finnst ekkert verið í lambalæri eða kjötbollur nema hafa sultu með. Síðan eru það pönnukökurnar og vöfflurnar, hjá mörgum verður að vera sulta,“ segir Brynja sem veit fátt skemmtilegra að dunda sér í eldhúsinu í Móberginu og búa til kræsingar fyrir sig og sína.

Brynja Dadda er búin að útbúa þessa skemmtilegu merkimiða sem …
Brynja Dadda er búin að útbúa þessa skemmtilegu merkimiða sem hún settur á krukkurnar. Ljósmynd/Brynja Dadda Sverrisdóttir

Móbergs rabarbarasulta

  • 750 g hrásykur
  • 1 kg rabarbari, skorinn í grófa bita

Aðferð:

  1. Setjið hrásykurinn og rabarbara saman í pott og látið suðuna koma upp.
  2. Lækkið þá undir suðunni og látið malla þar til þið eruð sátt við lit og áferð.
  3. Sultan er afar góð með grófri áferð.
  4. Setjið sultuna síðan í hreinar krukkur og með loki.
  5. Njótið þegar við á með því sem ykkur langar í.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert