Klassískt döðlugott fyrir lautarferðina

Gunnar Jökull Hjaltason bakarii er með helgarbaksturinn að þessu sinni …
Gunnar Jökull Hjaltason bakarii er með helgarbaksturinn að þessu sinni og deilir með lesendum uppskrift að döðlugotti. mbl.is/Eyþór Árnason

Þá er komið að helgarbakstrinum og að þessu sinni er það Gunnar Jökull Hjaltason nýútskrifaður bakari sem á heiðurinn af uppskriftinni. Hann deilir hér með lesendum uppskrift að klassísku döðlugott sem er fullkomið til að taka með lautarferðina eða upp í sumarbústað að njóta.

Döðlugottið hans Gunnars lítur vel út og fangar augað.
Döðlugottið hans Gunnars lítur vel út og fangar augað. mbl.is/Eyþór Árnason

Langar að skoða heiminn og læra meira af öðrum bökurum

Það eru búnar að vera miklar annir hjá Gunnari síðustu vikur og mánuði. En hann hefur líka unnið til verðlauna fyrir brauð ársins í fyrra meðan á náminu stóð.

Hvernig tilfinning er að vera loksins búinn með sveinsprófið og vera orðinn löggildur bakari?

„Það er mikill léttir að vera búinn með námið og ég er orðinn spenntur á skoða heiminn og læra meira af öðrum bökurum. Eftir að hafa klárað námið get ég núna farið út og skoðað heiminn og vinna á öðrum stöðum, sem er mikil breyting fyrir mig,“ segir Gunnar.

Hvað finnst þér skemmtilegasta baka?

„Mér finnst skemmtilegast að baka og búa til súrdeigsbrauð.”

Segðu okkur aðeins frá uppskriftinni af gotteríinu sem þú ætlar að deila með lesendum, er þetta þín uppskrift og á hún sér sögu?

„Mig langaði að gera eitthvað auðvelt og skemmtilegt fyrir lesendur eitthvað sem allir geta gert. Líka eitthvað sem hægt er að taka með í ferðalagið, lautarferðina eða í sumarbústaðinn. Það er svo gaman að geta boðið upp á góðgæti þegar farið er í sveitina að njóta,“ segir Gunnar að lokum og er sjálfur orðinn spenntur fyrir því að geta farið í frí.

Fullkomnir sætir bitar til að taka með lautarferðina.
Fullkomnir sætir bitar til að taka með lautarferðina. mbl.is/Eyþór Árnason

Döðlugott

  • 100 g smjör
  • 80 g púðursykur
  • 270 g döðlur
  • 75 g Rice Krispies
  • 45 g lakkrískurl

Krem/hjúpur ofan á

  • 200-300 g súkkulaði að eigin vali
  • Lakkrískurl eða bitar að eigin vali

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða smjör og púðursykur saman í potti og hellið síðan döðlum út í. Blandið síðan Rice Krispies og lakkrískurli saman  við.
  2. Setjið síðan í klassísk form í meðalstærð og setjið í kæli yfir nótt.
  3. Bræðið síðan súkkulaði eftir smekk til að setja ofan á döðlugotteríið.
  4. Smyrjið súkkulaðinu yfir þegar þá er orðið bráðið og skreytið með lakkrískurli.
  5. Kælið þar til súkkulaðið hefur storknað.
  6. Skerið síðan í jafnstóra bita og berið fram eða takið í nesti í næstu lautarferð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert