Hin fullkomna sunnudagssteik með kremuðu salati og grænpiparmajó

Lambamínútusteik með kremuðu salati borin fram með grænppiparmajó og frönskum …
Lambamínútusteik með kremuðu salati borin fram með grænppiparmajó og frönskum kartöflum. Ljósmynd/Íslenskt lambakjöt

Hér er á ferðinni einföld og góð uppskrift að hinni fullkomnu sunnudagssteik ásamt meðlæti, lambamínútusteik með kremuðu salati borin fram með grænpiparmajó og frönskum kartöflum að eigin vali. Uppskriftina er að finna á uppskriftavefnum Íslenskt lambakjöt og undirrituð er búin að prófa. Þetta bragðast ljómandi vel og það tekur stuttan tíma að töfra fram þessa máltíð.

Lambamínútusteik með kremuðu salati borin fram með grænpiparmajó og frönskum kartöflum

Lambamínútusteik

  •  800 g þunnar sneiðar af lambi, svokölluð mínútusteik.
  •  2 msk. ólífuolía
  •  2 hvítlauksgeirar, kramdir
  •  ½ sítróna, börkur rifinn fínt
  • ¼ tsk. sjávarsalt
  •  ⅛ tsk. svartur pipar, nýmalaður
  • Kremað salat (uppskrift fyrir neðan)
  • ¼ sítróna, skorin í báta

Aðferð:

  1. Þunnt skorið lambakjöt af ýmsum bitum hentar hér vel.
  2. Blandið ólífuolíu, hvítlauk og sítrónuberki saman í lítilli skál.
  3. Þerrið kjötið og setjið á fat.
  4. Hellið kryddleginum yfir og nuddið vel yfir allt kjötið.
  5. Hitið pönnu eða grill og hafið á háum hita.
  6. Saltið og steikið kjötið í 1-2 mínútur. á hvorri hlið, eða eftir smekk.
  7. Kryddið með nýmuldum pipar, setjið kjötið yfir á bretti með álpappír yfir og látið hvíla í a.m.k. 5 mínútur áður en það er borið fram með grænpiparmajó, stökkum kartöflum og kremuðu salati ásamt sítrónu til að kreista yfir ef vill.

Kremað salat

  •  1 skalotlaukur, saxaður smátt
  •  ½ tsk. sjávarsalt
  •  1 msk. rauðvínsedik
  •  3 msk. sýrður rjómi 18%
  •  150 ml ólífuolía
  •  4 msk. graslaukur, fínt skorinn
  •  1 romain salat, einnig hægt að nota jöklasalat
  •  ¼ tsk. svartur pipar, nýmalaður
  •  ½ sítróna, safi

Aðferð:

  1. Setjið skalotlauk, ½ tsk. af salti og edik í skál og hrærið saman, látið standa við stofuhita í 15 mínútur
  2. Blandið sýrðum rjóma og ólífuolíu saman við ásamt 2 msk. af graslauk.
  3. Rífið salatið gróft niður, þvoið og þerrið það vel. Setjið í skál og blandið saman við ½ tsk. af salti og svörtum pipar. Blandið sítrónusafa saman við salatið og setjið það yfir á disk.
  4. Dreypið sósunni yfir salatið rétt áður en það er borið fram og sáldrið yfir restinni af graslauknum.

Grænpiparmajó

  •  3 dl gott majónes
  •  1 dl grísk jógúrt
  •  1 msk. grænpipar (niðursoðinn)
  •  1 msk. hunang
  •  Sítrónusafi eftir smekk

Aðferð:

  1. Saxið helminginn af piparnum og hrærið allan piparinn saman við majónes, jógúrt og hunang.
  2. Smakkið til með salti og sítrónusafa.
  3. Geymið í kæli þar til sósan er borin fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert