Nakin pizza fyrir þau sem halda í Jónsmessuhefðina

Ásmundur Atlason markaðsstjóri Domino´s segir að nakta pítsan verði einungis …
Ásmundur Atlason markaðsstjóri Domino´s segir að nakta pítsan verði einungis í boði í kringum Jónsmessu. Samsett mynd

Jónsmessunótt er göldrótt og kynngimögnuð. Hún er ein fjögurra nátta á Íslandi þar sem undur geta gerst samkvæmt þjóðtrúnni, selir kasta hömum sínum, dýr tala mannamál, náttúrusteinar fljóta upp úr jörðinni og auðveldara verður að finna óskasteina, lífssteina, hulinshjálma, auk þess sem ýmsar náttúrulækningajurtir öðlast aukinn kraft.

En fátt er talið jafn heilsueflandi á Jónsmessunni og morgundöggin, sem öðlast lækningarmátt um nóttina samkvæmt þjóðtrúnni. Því er til siðs að fara út eldsnemma morguns, kasta af sér klæðum og velta sér nakin upp úr dögginni. Þannig getur fólk læknast af meinum og haldið veikindum í skefjum í heilt ár á eftir. Domino’s fagnar þessari séríslensku hefð með því að taka allt af og bjóða upp á Nakta pítsu.

Nakin pítsa í tilefni að Jónsmessunótt.
Nakin pítsa í tilefni að Jónsmessunótt. Ljósmynd/Domino´s

Var í fyrstu bara grín

Ásmundur Atlason, markaðsstjóri Domino’s segir að hugmyndin hafi kviknað þegar því var velt upp hvernig hægt væri að auglýsa grunninn að góðri pítsu. „Þetta var í fyrstu bara grín, að bjóða upp á pítsu með engu, svo fólk gæti prófað botninn okkar en eftir því sem við hugsuðum þetta meira þá fannst okkur skemmtilegra að tengja það við þessa nótt og þjóðtrúna,“ segir Ásmundur.

„Þannig að við ákváðum að klæða pítsuna úr og um leið minna á að það er alltaf það sem er undir er mikilvægast. Það á við um fólk og pítsur. Álegg er bara smekksatriði en pítsubotninn, það skiptir öllu máli að hann sé alltaf fyrsta flokks. Hann er grunnurinn að góðri pítsu alveg sama hvað fólk ákveður að setja á hana," segir hann enn fremur.

Nakta pítsan er aðeins í boði í kringum Jónsmessu og eru landsmenn hvattir til að taka hana með sér þegar þeir fara og velta sér upp úr dögginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert