Þessa dagana er mest spennandi hjá yngri kynslóðinni að fá gott nesti í ferðalagið, með á leikjanámskeiðið eða æfingarnar svo fátt sé nefnt. Skólarnir komnir í frí og þá er að njóta þess að fá gott nesti með í afþreyinguna hver sem hún er. Hjördís Dögg Grímarsdóttir sem heldur úti uppskriftasíðunni Mömmur smellti inn laufléttri uppskrift að eldbökuðum pítsasnúðum á TikTok sem einfalt er að gera og baka í útipítsaofni og krakkarnir eiga eftir að elska. Sjáið hvernig Hjördís býr þessa dásamlegu pítsasnúða til og leikið listina eftir. Þetta er líka uppskrift fyrir ömmu og afa að leika eftir.
Eldbakaðir pítsasnúðar
- 500 ml volgt vatn
- 16 g þurrger
- 2 tsk. sykur
- 1 tsk. malt extract
- 2 msk. olía
- 2 ½ tsk. salt
- 1 tsk. óreganó
- 850 g hveiti
Fylling:
- Pítsasósa að eigin vali.
- 1-2 pk. skinka, smátt skorin
- 1-2 pk. rifinn ostur að eigin vali
Aðferð:
(Sjáið hvernig Hjördís gerir á Tik Tok).
- Byrjið á því að setja þurrger, sykur og olíu saman í skál með volgu vatni.
- Hrærið vel saman og blandið salti saman við.
- Bætið hveitinu saman við og hnoðið deigið í 5-10 mínútur.
- Látið deigið hefast á hlýjum stað í um það bil klukkustund eða þar til það hefur tvöfaldað sig.
- Fletjið deigið út og smyrjið pítsasósu yfir það.
- Sáldið smátt skorinni skinku yfir ásamt rifnum osti.
- Rúllið deigið upp og skerið í hæfilega stóra bita.
- Ef vill er vert að krydda bitana til með óreganó kryddi að vild.
- Setið snúðana á pítsaplötu og bakið í örstutta stund í útipítsaofni á hæsta hita, tekur mjög stutta stund og vert að fylgjast vel með bakstrinum.
- Fullkomnir í nestið fyrir yngri kynslóðina við hvaða tilefni sem er.