Girnilegar grillaðar risarækjur með klístraðri hvítlauks- og hunangssósu

Girnilegar grilluðu risarækjurnar í hvítlauks- og hunangssósunni.
Girnilegar grilluðu risarækjurnar í hvítlauks- og hunangssósunni. Ljósmynd/Linda Ben

Á þessum árstíma er unaðslegt að njóta góðra sjávarrétta með sumarlegu ívafi. Grillaðar tígrisrækjur eiga vel við á góðum degi og ávallt er gaman að leika sér með maríneringuna sem notuð er ásamt meðlæti. Þessi uppskrift að grilluðum risarækjum með klístraðri hvítlauks- og hunangssósu er æðisleg, rækjurnar eru svo bragðgóðar og gott er að strá aðeins af fersku kóríander yfir rækjurnar þegar þær eru bornar fram. Heiðurinn af uppskriftinni á Linda Ben uppskriftahöfundur en hún gerði uppskriftina fyrir uppskriftavefinn Gerum daginn girnilegan sem býður upp á fjölbreytt úrval af girnilegum réttum.

Grillaðar tígrisrækjur með klístraðri hvítlauks- og hunangssósu

Fyrir 3 -4 

  • 400 g stór tígrisrækja frá Sælkerafisk
  • ¼ ferskur ananas
  • 50 g smjör
  • 1 dl hunang
  • 2 msk. sojasósa
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt kóríander (má sleppa)
  • Sítrónur eftir smekk
  • Grillpinnar eftir þörfum

Aðferð:

  1. Best er að láta grillpinnana liggja í bleyti í um það bil 20 mínútur áður en matnum er raðað á pinnana.
  2. Setjið smjör, hunang og sojasósu ofan í lítinn pott og sjóðið saman, rífið hvítlauksgeirana út í og kryddið með salti og pipar, sjóðið þar til sósan hefur þykknað og líkist sírópi.
  3. Skerið ferskan ananas í bita, takið börkinn af. Raðið risarækjum og ananas á pinnana til skiptis, penslið svolítið af sósunni yfir pinnana.
  4. Grillið pinnana á báðum hliðum í 3-5 mínútur á hvorri hlið eða þar til rækjurnar eru eldaðar í gegn, penslið meira af sósunni yfir pinnana á meðan verið er að grilla.
  5. Setjið á viðarbretti eða fat og berið fram með fersku kóríander og sítrónubátum eða sneiðum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert