Langar þig í góðan fiskrétt með ljúfu meðlæti?

Mexíkófiskréttur með bræddum osti og kóríander.
Mexíkófiskréttur með bræddum osti og kóríander. Ljósmynd/Sjöfn

Ég lagaði þennan mexíkófiskrétt fyrir fjölskylduna í vikunni og var með ljúffengt meðlæti með og það kláraðist allt upp til agna. Ég var með nýja ferska þorskhnakka sem ég setti í létta mexíkósósu og í meðlæti var ferskt blandað salat frá VÖXU með sprettum, papriku, gúrku, rauðlauk, jarðarberjum og salatosti, nýjar soðnar möndlukartöflur frá Frakklandi, toppaðar með ferskri steinselju og soðnum grjónum. Þannig að heimilisfólkið gat valið hvort það vildi grjón eða kartöflur með fisknum.

Tilbúinn í ofninn.
Tilbúinn í ofninn. Ljósmynd/Sjöfn

Það er alltaf verið að tala um að rannsóknir sýni að við Íslendingar séum að borða allt of lítið af fiski og því er lag að reyna að setja sér markmið að vera með fisk nokkrum sinnum í viku. Galdurinn við að gera góða máltíð með fisk er að vera líka með gott meðlæti sem rennur ljúft niður.

Fallegur litur kominn á ostinn.
Fallegur litur kominn á ostinn. Ljósmynd/Sjöfn

Mexíkófiskréttur að hætti Sjafnar

Fyrir 4

  • 1 kg þorskhnakkar
  • 1 stk. mexíkóostur
  • 250 ml rjómi
  • ½ dl soðið vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 2-3 msk. rautt pestó
  • 1 msk. sýrður rjómi
  • 1 msk. rjómaostur
  • Grænmetiskrydd frá Mabrúka eftir smekk
  • Pipar og salt eftir smekk
  • Ólífuolía eftir smekk
  • 1 lúka ferskt kóríander
  • Rifinn mozzarella eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C hita.
  2. Skerið fiskinn í jafna bita.
  3. Finnið til meðalstórt eldfast mót.
  4. Setjið örlítið af ólífuolíu í fatið.
  5. Leggið fiskinn í eldfast mót og kryddið eftir smekk með kryddunum.
  6. Skerið mexíkóostinn í teninga og setjið í pott, setjið soðið vatn í pottinn sem fer aðeins yfir ostinn, bræðið þar til osturinn hefur leyst upp og bætið grænmetisteningnum út í.
  7. Bætið rjómanum, pestóinu, sýrða rjómanum og rjómaostinum út í.
  8. Hellið sósunni yfir fiskinn og dreifið rifnum mozzarellaosti yfir.
  9. Setjið inn í ofn og bakið í um það bil 20 til 25 mínútur eða þar til osturinn er aðeins farinn að brúnast.
  10. Dreifið fersku kóríander yfir réttinn þegar hann kemur úr ofninum.
  11. Berið fram með fersku salati, soðnum möndlukartöflum með steinselju og/eða grjónum.
Ljómandi gott salat með alls konar góðgæti í.
Ljómandi gott salat með alls konar góðgæti í. Ljósmynd/Sjöfn
Þessar möndlukartöflur eru algjört sælgæti.
Þessar möndlukartöflur eru algjört sælgæti. Ljósmynd/Sjöfn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert