Ommeletta með papriku, osti og sprettum til að byrja daginn

Ommeletta með papriku og bræddum osti borin fram með sprettum, …
Ommeletta með papriku og bræddum osti borin fram með sprettum, salati og nýjum íslenskum jarðarberjum. Ljósmynd/Sjöfn Þórðar

Mitt uppáhalds til hefja daginn á er að fá mér góða ommelettu sem gleður bæði augu og munn. Það þarf ekki að vera flókið að útbúa ommelettu og bera hana fram á fallegan hátt. Þetta er ein af mínum uppáhalds þar sem paprika, bræddur ostur og sprettur leika aðalhlutverkið. Síðan finnst afar gott að fá smá salat með ásamt nýjum íslenskum jarðarberjum. Svo gott.

Falleg fyrir augu og munn, gleður sálina í upphafi dags.
Falleg fyrir augu og munn, gleður sálina í upphafi dags. Ljósmynd/Sjöfn Þórðar

Ommeletta með papriku, osti og sprettum

Fyrir einn

  • 3 egg
  • ½ rauð paprika, smátt skorin
  • Feyki ostur eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Góð ólífuolía og smjörklípa til steikingar
  • Ferskar sprettur að eigin vali, til að mynda radísusprettur og kóríandersprettu frá VAXA
  • Mozzarellaostur
  • Fersk steinselja
  • Rifinn parmesanostur ef vill

Til hliðar

  • Salatblanda frá VAXA eftir smekk (t.d. salatblöndu með kristalsalati, eikarblaðsalati og salanova eða blöndu með kristalssalati og radíususprettum
  • Íslensk jarðarber eftir smekk
  • Balsamiksíróp eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita góða ólífuolíu og smjörklípu á meðal stórri pönnu.
  2. Pískið saman egg.
  3. Setjið papriku á heita pönnuna og létt steikið.
  4. Hellið eggjablöndunni yfir paprikuna á pönnunni og látið steikjast.
  5. Setjið þunnar sneiðar af Feyki ofan á eggjablönduna á meðan hún er að steikjast, bakast.
  6. Klemmið saman ommelettuna í mána og sáldrið mozzarella osti yfir eftir smekk á meðan hún er að steikjast. Má setja örstutt inn í bakarofn og láta bakast ofan á.
  7. Setjið síðan hálfmánann á disk og klippið niður ferskar sprettur og ferska steinselju til að setja ofan á.
  8. Rifið síðan niður smá parmesanost ef vill, má sleppa.
  9. Setjið salatblöndu til hliðar á diskinn ásamt ferskum jarðarberjum og rönd af balsamiksírópi.
  10. Berið fallega fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert