Selfyssingar mestu nammigrísir landsins

Ásdís Ragna Valdimarsdóttir markaðsstjóri segir að það sé ljóst að …
Ásdís Ragna Valdimarsdóttir markaðsstjóri segir að það sé ljóst að Íslendingar séu nammióðir, og þá sérstaklega Selfyssingar, en Krambúðin þar í bæ selur langmest af nammi. Samsett mynd

Selfyssingar eru mestu nammigrísir landsins ef marka má sölutölur Krambúðarinnar í nýjum nammibörum verslananna og eru Íslendingar í heildina nokkuð sælgætisóðir þegar á heildina er litið. Nammibarir nutu lítilla vinsælda í Covid en nú hefur eftirspurnin aukist á ný. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Krambúðinni.

Krambúðin fjölgar nammibörum

Verslanir Krambúða hafa selt rúmlega 26,5 tonn af nammi úr nammibarnum það sem af er ári. Viðskiptavinir hafa tekið vel í endurkomu hins gamalkunna nammibars, sem margir hverjir hurfu smátt og smátt af sjónarsviði Íslendinga þegar sóttvarnaraðgerðir voru hertar í kjölfar heimsfaraldursins. Frá upphafi árs hafa bæst við nammibarir í Krambúðirnar á Selfossi, Húsavík, Akranesi, Njarðvík, Flúðum, Kársnes, Búðardal, Skólavörðustíg og Laugarvatni. En áður fyrr voru einungis nammibarir á Borgarbraut, Búðarkór, HR, Keflavík og Garðabæ.

„Við fundum fyrir miklum áhuga frá okkar viðskiptavinum að fá aftur nammibari í verslanir, og höfum fengið gríðarlega góðar móttökur. Þegar við opnuðum nammibar í Krambúðinni á Selfossi seldist til að mynda 600 kíló af nammi á fyrstu þrem dögunum, sem var langt fram úr okkar væntingum. Eftir að við byrjuðum þessa vegferð að opna nammibari á ný höfum við fengið fjölda áskorana að opna fleiri og stefnum við á að hafa nammibari í öllum 21 verslunum okkar,“ segir Ásdís Ragna Valdimarsdóttir, markaðsstjóri Krambúðarinnar.

Íslendingar nammióðir miðað við söluaukninguna

Nammibarir eru vinsælir meðal Íslendinga, en mörgum hverjum finnst gott að velja sér gott bland í poka á tyllidögum. „Við erum að sjá mikla aukningu í nammikaupum viðskiptavina okkar, en það sem af er ári þá hefur nammisala í nammibörum aukist um heil 522% hjá okkur. Það er okkur ljóst að Íslendingar eru alveg nammióðir, og þá sérstaklega Selfyssingar, en Krambúðin þar í bæ selur langmest af nammi,“ segir Ásdís.

Þess ber að geta að 26,5 tonn er ansi mikið magn af sælgæti. Til samanburðar þá vegur einn fíll um 6 tonn. Má því áætla að viðskiptavinir Krambúðarinnar hafi trítlað út með nammipoka sem vega samtals um 4 og hálfan fíl á árinu. Hver nammipoki sem viðskiptavinir kaupa vegur þó bara um 300 gr að meðaltali, og bætir Ásdís við að það sé 50% afsláttur allar helgar þ.e. föstudaga, laugardaga og sunnudaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert