Lífrænar kjötvörur beint frá býli komnar í verslanir

Ása Hlín Gunnarsdóttir hjá Biobú er afar ánægð með hamborgarana …
Ása Hlín Gunnarsdóttir hjá Biobú er afar ánægð með hamborgarana og er iðin að skella þeim á grillið þessa dagana. Ljósmynd/Aðsend

Lífrænt nautakjöt frá Biobú fæst nú í völdum verslunum Krónunnar. Biobú er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í lífrænum mjólkur og kjötvörum.

Kjötið er verkað í handverkssláturhúsinu í Borgarnesi sem er vottað lífrænt sláturhús. Kjötvörurnar sem eru í boði er hakk og hakkbollur.

„Við erum afar stolt af því að nú fást lífrænu kjötvörurnar okkar loksins í stærri verslunum Krónunnar. Kjötið okkar er lífrænt, eingöngu 100% kjöt og það er upprunamerkt, en á öllum okkar pakkningum sést hvaðan kjötið kemur. Með því að selja svo kjötið sem frystivöru, náum við að halda ferskleika lengur og sporna þannig gegn matarsóun. Í sláturhúsinu í Borgarnesi fær kjötið að hanga lengur heldur en gengur og gerist í öðrum sláturhúsum sem gerir það að verkum að kjötið verður meyrara. Það er passað upp á gæðin, því til dæmis þá eru hakkbollurnar okkar handmótaðar í sláturhúsinu í Borgarnesi. Ég held að það gerist varla betra,“ segir Ása Hlín Gunnarsdóttir forstöðumaður markaðsmála hjá Biobú.

Ágóðinn af því borða lífræn matvæli margvíslegur

„Okkur finnst mjög mikilvægt að lífrænar kjötvörur séu í boði fyrir almenning því þá hefur fólk val. Svo er ágóðinn af því að borða lífræn matvæli margvíslegur. Þú ert ekki að innbyrða nein eiturefni sem hefur áhrif á tauga og hormónakerfið þitt og lífræn ræktun er betra fyrir umhverfið því það eru engin eiturefni að skolast út í sjóinn eða andrúmsloftið. Sumir finna ekki áhrifin strax á meðan aðrir næmari einstaklingar finna fljótt mun og við höfum fengið skilaboð um það, meðal annars frá fólki með ADHD,“ segir Ása Hlín jafnframt.

„Svo hefur fólk stoppað mig úti á götu og tilkynnt mér hvað vörurnar okkar eru góðar og frábrugðnar öðrum kjötvörum. Eins og að enginn vökvi komi frá hakkinu við eldun og að hamborgararnir okkar haldist lögun við steikingu. Mér fannst það svolítið skemmtileg athugasemd,“ segir Ása Hlín ánægð.

Lífrænt nautakjöt frá Biobú fæst í Hagkaup, hjá Matlandi og í Krónunni Akureyri, Bíldshöfða, Flatahrauni, Granda, Lindum, Mosfellsbæ, Selfossi og Skeifunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert