Rjómablíða á fyrstu rabarbarahátíðinni

Rabarbari er æðislegur í hina ýmsu rétti og kökur.
Rabarbari er æðislegur í hina ýmsu rétti og kökur. mbl.is/Getty Images

Rabarbarahátíðin á Blönduósi er í dag haldin í fyrsta sinn. Einn skipuleggjenda hátíðarinnar segir tilganginn að vekja athygli á rabarbaranum sem vannýttri auðlind og um leið fegurð gamla bæjarins á Blönduósi. 

„Hátíðin kemur eiginlega þannig til að við vorum hérna tvær, gamlir Blönduósingar að velta fyrir okkur í fyrrasumar, af hverju það var ekki nýttur meira þessi rabarbari, sem vex hér alveg rosalega vel. Við eiginlega bara svona mönuðum hvor aðra upp í að það þyrfti að halda hátíð, til þess að vekja athygli annars vegar á rabarbaranum sem vannýttri auðlind og líka þessu svæði,“ segir Elfa Þöll Grétarsdóttir, einn forsprakka hátíðarinnar. 

Þá nefnir hún að allt of fáir komi og skoði gamla bæinn á Blönduósi. 

Hátíðin er haldin í fyrsta skipti.
Hátíðin er haldin í fyrsta skipti. Ljósmynd/Facebook

Rabarbaragrautur fyrir 120 manns

Hátíðin fer að miklu leyti fram í Krúttinu, gömlu brauðgerðinni í bænum en húsið var gert upp fyrir allskyns viðburðahald. 

„Hér eru allir að vinna sjálfboðavinnu, það er ekkert budget í þessu. Þetta er allt sjálfboðavinna og allt efni gefið. MS gefur rjómann og Garri og Lærimeistarinn gefa sykur og svo eru ýmis fyrirtæki sem gefa verðlaun í uppskriftarkeppni,“ segir Elfa. 

Spurð út í skráningu í uppskriftakeppnina segir hún skráningu hafa verið óþarfa en í það minnsta hafi skipuleggjendur eldað rabarbaragraut fyrir um 120 manns. 

„Það var ekki skráning. Við erum að gera þetta allt í fyrsta skipti og þetta er í raun og veru bara svona pilot verkefni. Undirbúningur fyrir eitthvað meira í framtíðinni. En það er geggjað veður á Blönduósi, besta veður ársins, logn, sól og hlýtt.

Við rennum algjörlega blint í sjóinn með þetta en við allavegana elduðum graut fyrir 120 manns.“

Fyrirlestrar, fuglaskoðun, leikir og rabarbari ræktaður í myrkri

Dagskrá hátíðarinnar er ansi fjölbreytt og nefnir Elfa leiki fyrir börn, uppskriftakeppnina, fuglaskoðun, draugagöngu og fyrirlestra. 

„Meðal annars ætlar hún Nanna Rögnvaldardóttir að tala um rabarbara og fleiri góðir aðilar. Síðan er bara allskonar smakk og húllumhæ.“

Þegar samtalið berst að uppáhalds rabarbarauppskrift er augljóst að Elfu þyki erfitt að velja, svo margt nýstárlegt verði á boðstólnum í dag, þó sé chutney og sýróp í miklu uppáhaldi.

„Síðan erum við að fara að smakka í dag reyktan rabarbara og svo erum við hérna með líka rabarbara sem hefur verið ræktaður í myrkri, hann er áhugaverð nýjung. Svo elska ég rabarbarasýróp af því það er svo gaman að drekka það sem sumardrykk hvort sem hann er áfengur eða óáfengur,“ segir Elfa að lokum.

Frekari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má sjá með því að smella hér eða á Facebook viðburði hátíðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert