Benedikt hámar í sig matarmenningu hvers lands

Benedikt Kristjánsson tenór söngvari og matgæðingur á heiðurinn af vikumatseðlinum …
Benedikt Kristjánsson tenór söngvari og matgæðingur á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni á Benedikt Kristjánsson söngvari og matargæðingur með meiru. Vikumatseðillinn hans lýsir vel ástríðu hans á matargerð og enda er hann mikill nautnaseggur.

Þekktur sem tenór söngvari

Benedikt er aðallega þekktur sem tenór söngvari, en er þar að auki framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi sumartónleikana í Skálholti, en sumartónleikarnir hefjast einmitt 6. júlí næstkomandi og standa til 14.júlí. „Það verða tónleikar á hverjum degi, og um helgar verða líka spennandi viðburðir fyrir fjölskyldur og börn, sem og messur með tónlist eftir Johann Sebastian Bach, sem ég stýri,“ segir Benedikt. Matur mun líka skipa sinn sess á hátíðinni enda mikil ræktun í Skálholti og þar í kring. Meðal annars munu tómatar koma við sögu á hátíðinni.

Benedikt er mikill áhugakokkur, en sem söngvari hefur hann ferðast mikið um heiminn og nýtur þess að háma í sig matarmenningu hvers lands sem hann ferðast til. „Ég hef gaman að því að kynnast matarmenningu hvers lands sem ég heimsæki og sérstaklega heimafólks þar sem heimilismaturinn er gerður frá grunni,“ segir Benedikt og bætir við að kynnast matarmenningu annarra þjóða auki fjölbreytnina í matargerðina heima eldhúsi.

Mánudagur – Gómsæt eggjabaka með grænmeti og osti

„Byrja vikuna rólega, og njóta þess að gera allt á einni pönnu. Svo er gott að hafa eitthvað grænt með til hliðar líka. Hollt, gott og lítið uppvask.“

Þriðjudagur – Ljúffengir þorskhnakkar með beikon- og eplaostasósu

„Þorskur og beikon er frábært saman, hugsanlega pancetta enn betra en beikon, en ég ætla ekki að vera að breyta þessari uppskrift, því hún er dásamleg. Ofnbakaðar kartöflur með timian með þessu, og salat.“

Miðvikudagur – Hægeldaður lax með fennel og sítrus

„Best er að hafa þetta lax í heilu, og grilla hann þannig. Þá verður allt mun safaríkara. Bara skella honum í álpappír og gleyma honum á óbeinum hita í grillinu.“

Fimmtudagur – Lúxus lambakóróna með sumarlegu kartöflusalati

„Mynta og lambakjöt er snilldarleg blanda. Sjálfur hef ég mesta dálæti á kartöflusalati eins og Austurríkismenn gera, sem er bara með lauk, hvítlauk, edik og olíu. En það má hver gera sitt uppáhald.“

Föstudagur - Japanskt kjúklingasalat að hætti Húsó

„Sjálfur er ég ekkert fyrir þungan mat, eins og pítsu, á föstudögum. Frekar eitthvað gómsætt og létt eins og þetta kjúklinganúðlusalat. Næringarríkt, létt og bragðgott.“

Laugardagur – Guðdómlegt pasta með risarækjum

„Það verður að vera pasta einu sinni líka. Að vísu gæti ég ekki boðið upp á svart smokkfiskablek heima hjá mér, því konan mín myndi springa úr ofnæmisviðbrögðum. En þá skipti ég því bara út, og set eitthvað venjulegt bara.“

Sunnudagur – Alvöru pottsteik

„Alltaf gaman að elda kvöldmat um morguninn, og finna ilminn um allt hús. Með þessu er borið fram salat, og kartöflumús með steinselju og rauðvín frá Bordeaux.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert