Uppáhaldshamborgari Kristínar landsliðskokks sló í gegn

Kristín Birta Ólafsdóttir sló í gegn með þessum sælkeraborgara með …
Kristín Birta Ólafsdóttir sló í gegn með þessum sælkeraborgara með parmaskinku, sterkum osti og chimmichurri. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Birta Ólafsdóttir matreiðslumeistari og meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu deilir með lesendum Matarvefsins uppskriftinni að sínum uppáhaldshamborgara. Hún elskar að grilla á sumrin og þá eru hamborgarnir ofarlega á vinsældalistanum.

Kristín Birta er 26 ára gömul og starfar á Hótel Reykjavík Grand. Hún á 3ja ára dóttur, Emmu, sem þegar farin að leika listir sínar eftir mömmu sinni en  Kristín er búin að vera meðlimur í kokkalandsliðinu síðan árið 2023 og dóttirin fylgst vel með því ferli.

„Þessa dagana er ég að vinna vaktavinnu á Grand, að elda fyrir veitingastaðinn þar, og er síðan að sinna heimili, fjölskyldu og sjálfri mér. Ég lauk meistaranáminu núna í maí síðastliðnum og er ótrúlega glöð með að vera búin að ljúka náminu,“ segir Kristín Birta.

Kristín Birta Ólafsdóttir er meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu.
Kristín Birta Ólafsdóttir er meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dýrasti borgarinn ekki endilega alltaf besti borgarinn

Þegar kemur að því að grilla hamborgara finnst Kristínu Birtu að huga að því hvað matargestum finnst allra best á borgarann því smekkur manna er misjafn.

„Góður hamborgari getur verið alls konar upp byggður; það fer allt eftir smekk fólks. Klassíski sjoppuborgarinn er alltaf góður og ég er á þeirri skoðun að dýrasti borgarinn er ekkert endilega alltaf besti borgarinn. Það eru til margskonar hráefni sem passa saman á hamborgara. Ég hef eldað og borðað ótrúlega marga mismunandi hamborgara, en það eitt sem mér finnst alltaf vera best þegar hamborgari er eldaður. Það er að hafa borgarann grillaðan, eldaðan „medium“ og nauðsyn að hafa ost á honum ásamt góðu brauði. Að krydda hamborgara finnst mér ekki nauðsynlegt, nema bara með salti; það ýtir fram bragðinu af borgaranum enn frekar.“

Uppáhaldsborgarinn hennar Kristínar Birtu er með sterkum osti og sneið af parmaskinku, rauðlaukssultu og sælkeradressingum ásamt smjörsteiktum sveppum og klettasalati. Þetta er sannkallaður sælkeraborgari.

Breytti hamborgaranum og hann sló í gegn

„Þessi uppskrift varð til þegar ég var að vinna á Bryggjunni Brugghúsi, og við vorum með hamborgara á seðli. Sá hamborgari var með parmaskinku, Dóra sterka og rauðlaukssultu. Ég var að elda hamborgara ofan í starfsfólkið og ákvað að prófa að bæta og breyta hamborgaranum á matseðlinum og úr varð þessi og hann sló einfaldlega í gegn. Gott heimagert chimichurri passar svo vel með nautaborgara, og nautakjöti yfir höfuð, sérstaklega þegar maður er með sæta rauðlaukssultu sem vegur fullkomlega á móti chilipiparnum í chimichurri sósunni,“ segir Kristín Birta að lokum.

Ómótstæðilegur að horfa á.
Ómótstæðilegur að horfa á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppáhaldsborgarinn hennar Kristínar Birtu

Fyrir 1

  • 175 g nautaborgari
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Dóri sterki ostur
  • Sneið af parmaskinku
  • Rauðlaukssulta eftir smekk
  • Tómatsósa eftir smekk
  • Japanskt majó eftir smekk
  • Heinz sinnep eftir smekk
  • Chimichurri eftir smekk, sjá uppskrift fyrir neðan
  • Smjörsteiktir Flúðasveppir eftir smekk
  • Klettasalat eftir smekk
  • Brioche hamborgarabrauð

Aðferð:

  1. Grillið hamborgarann og kryddið með salti og smá pipar.
  2. Þegar þið snúið honum við á grillinu er lag að setja ostinn ofan á.
  3. Létt steikið parmaskinkusneiðina á pönnu.
  4. Steikið sveppina upp úr smjör.
  5. Penslið hamborgarabrauðið að innan með smjöri og steikið á pönnu þar til það er gullinbrúnt og smá krispí.
  6. Ef maður vill vera með smá stæla þá er toppurinn settur í örlitla stund á grillið til að fá flottar grillrendur ofan á.
  7. Setjið síðan tómatsósu og smá sinnep á botninn og majó í lokið.
  8. Setjið næst klettasalatið ofan á, og svo hamborgarinn sjálfan.
  9. Setjið parmaskinkuna ofan á hamborgarann og svo rauðlaukssultuna.
  10. Síðan eru herlegheitin toppuð með chimichurri og sveppum.
  11. Loks lokið þið hamborgaranum með brauðlokinu, stingið pinna í gegn og borgarinn er tilbúinn.

Chimmichurri

  • 130 g ólífuolía (ekki extra virgin)
  • 2 msk. rauðvínsedik
  • 1 búnt steinselja söxuð
  • 4 hvítlauksrif söxuð
  • 1 rauður chilli saxaður fínt
  • 1 tsk. óreganó þurrkað
  • 1 tsk. gróft sjávarsalt
  • Ögn af svörtum pipar

Aðferð:

  1. Öll hráefnin eru sett saman í skál og blandað vel.
  2. Þetta er svo geymt í kæli yfir nótt til að brögðin blandist vel út í olíuna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka