Á sumrin er vinsælt að grilla og þá er ekkert betra en að fá kaldar og ferskar sósur með. Tzatziki sósan er ótrúlega fersk og góð og passar með mörgu, til að mynda með grilluðum fisk, bragðmiklum kjúkling, fersku salati og líka með grilluðu salati. Hún passar í raun með öllum grillmat og líka sem ídýfa með fersku grænmeti.
Tzatziki
- 4 dl vanillujógúrt, kókosjógúrt eða grískt jógúrt
- 2 msk. majónes
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 1 tsk saltflögur
- Smá ólífuolía
- Rifin börkur af límónu eftir smekk
- Ferskur sítrónu- eða límónusafi eftir smekk
- 1-2 msk. ferskar kryddjurtir, dill, mynta, graslaukur eða kóríander
- ½ agúrka, rifin niður
Aðferð:
- Byrjið á því að hræra saman jógúrti og majónesi.
- Bætið við pressuðum hvítlauksrifjum.
- Kryddið með saltflögum, límónubörk og ferskum kryddjurtum eftir smekk.
- Bætið við örlítilli ólífuolíu.
- Setjið síðan agúrkuna út í eftir að hafa rifið hana niður og kreist safann úr henni. Gott að leggja rifnu agúrkuna á eldhúsbréf þannig að safinn fari úr henni.
- Setjið smá sítrónu- eða límónusafa út í, eftir smekk.
- Hrærið saman og setjið í kæli fyrir notkun.
- Skreytið með kryddjurtum, t.d. fersku dilli, eða graslauk.
- Berið fram með því sem hugurinn girnist.
- Passar ákaflega vel með grilluðum fiski, krydduðum kjúkling og salatréttum.