Stefanía Malen Guðmundsdóttir bakari elskar fátt meira en að baka og býður lesendum Matarvefsins upp á uppskrift að dýrlegri hnallþóru eins hún vill hafa hana enda fjölskylduuppskrift. Þessi á vel við um helgina ef ykkur langar til að bjóða í sumarboð eða góðum gestum upp í sumarbústað að njóta.
Stefanía tók þátt í heimsmeistaramóti ungra bakara sem haldið var hér á landi í byrjun júní ásamt Heklu Guðrúnu Þrastardóttur. Þær vöktu mikla athygli fyrir hæfni sína og einstakt samstarf og fengu til að mynda sérverðlaun frá yfirdómara keppninnar, Þjóðverjanum Bernd Kutscher bakarameistara, sem þykir mikill heiður.
Mjög gaman að sjá marenstertur hjá öðrum
Þegar tertur eru annars vegar er Stefanía á því að vinsælustu terturnar á Íslandi séu ávallt marenstertur og í raun sé enginn sem geri marenstertu eins. Allir eigi sitt handbragð, fyllingu og áferð.
„Marensterta eða hnallþóra eins og terturnar hafa alltaf verið kallaðar hjá fjölskyldunni minni er örugglega ein vinsælasta tertan á Íslandi. Í fjölskyldunni minni er ávallt marens við öll tilefni, í afmælum, fermingum og brúðkaupum. Það sem mér finnst svo gaman við marenstertur er að þó allir séu með sömu uppskriftina er enginn samt sem áður með eins köku. Fólk er svo mismunandi, hvernig það vill hafa marensinn. Sumir vilja hafa Rice Krispies eða Special K í marensnum en aðrir ekki. Fólk notar mismunandi sósur, ber og rjóma þannig að útkoman verður margbreytileg. Það er því ávallt mjög gaman að sjá marenstertur hjá öðrum “ segir Stefanía.
Pabbi langbestur að gera marenstertuna
„Þegar það er afmæli eða viðburður í fjölskyldunni minni gerir pabbi alltaf marenstertuna, hann er langbestur að gera marenstertuna í fjölskyldunni, auðvitað fyrir utan mig. Og þetta er líka það eina sem pabbi getur bakað án þess að það misheppnist hjá honum. Ég gerði mína fyrstu marenstertu fyrir ferminguna mína þegar ég var 13 ára með pabba. En marenstertan í minni fjölskyldu hefur alltaf verið sú sama síðan ég man eftir, með þykkum botn, íslenskum rjóma, jarðarberjum, bláberjum, grænum vínberjum og After eigth-sósu. Þegar ég geri marenstertu finnst mér langbest að gera vanillurjóma. Mér finnst það gefa tertunni ferskara bragð, einnig bæti ég við rifsberjum og brómberjum því þau tilheyra uppáhaldsberjunum mínum,“ segir Stefanía sposk á svip.
Gott er að baka marensinn daginn áður en bera á hnallþóruna fram, eins og kemur fram í uppskriftinni.
Hnallþóran hennar Stefaníu
- 2 stk. marensbotnar
- Vanillurjómi
- After Eight-sósa
- Súkkulaði spænir eftir smekk
- Fersk ber að eigin vali og magn eftir smekk
Marensbotnar
- 240 g eggjahvítur
- 400 g sykur
- 4 g lyftiduft
Aðferð:
- Fyrst þarf að athuga að öll áhöld séu hrein og engin fita á þeim.
- Hitið síðan ofninn í 120°C hita.
- Þeytið eggjahvíturnar í 80% þeytingu og þá er sykurinn settur út í og þeytt þar til að það er hægt að halda skálinni á hvolfi án þess að marensinn leki.
- Bætið við lyftidufti og þeytið aðeins lengur.
- Þá ætti marensinn að vera orðinn millistífur.
- Það þarf að passa að ofþeyta marensinn ekki. Ef hann er ofþeyttur þá verður hann of þurr, stökkur og viðkvæmur og brotnar auðveldlega.
- Nú er marensinn settur á smjörpappír á ofnplötu og flatt út í formið eins og þú vilt.
- Ég flet út með pallettspaða í 2 x 25 cm hringi.
- Setjið síðan inn í ofn á 120°C hita og bakið í 4 klukkustundir. Eftir það er slökkt á ofninum en hafið þá marensinn áfram inn í ofninum og leyfið honum að vera þar yfir nótt.
Vanillurjómi
- 1000 g mjólk
- 1 stk. vanillustöng
- 130 g eggjarauður
- 200 g sykur
- 90 g maizena-maíssterkja
- 30 g smjör
- 400 g þeyttur rjómi
Aðferð:
- Setjið mjólk og vanillustöng í pott og hitið upp á suðu.
- Blandið saman eggjarauðum, sykri og maizena-maíssterkju í skál.
- Þegar mjólkin er komin upp á suðu setjið þá 1/3 hluta í eggjablönduna og blandið saman og setjið síðan aftur í pottinn og hrærið saman þar til blandan er orðin þykk.
- Takið þá pottinn af hellunni og setjið smjörið út í og hrærið þar til allt er komið saman.
- Setjið í skál og setjið plastfilmu yfir og geymið inn í kæli yfir nótt.
- Daginn eftir hrærið þið í vanillukreminu þangað til það er orðið eins og búðingur.
- Setjið þá stífþeytta rjómann út í og hrærið varlega saman við.
Samsetning:
- Takið til marensbotnana og kökudisk sem þið ætlið að setja hnallþóruna á.
- Setjið síðan vanillurjómann á milli botnanna ásamt berjum að eigin vali en ég notaði jarðarber, bláber, rifsber, græn vínber og brómber en hver og einn á bara að nota það sem hann vill.
- Síðan setjið þið After Eight-sósu á milli (sjá uppskrift hér fyrir neðan).
- Einnig setjið þið sósuna á toppinn, ofan á hnallþóruna og setjið þá líka súkkulaðispæni yfir ásamt After eight-plötum.
After Eight-sósa
- 250 g rjómi
- 150 g After Eight
- 150 dökkt súkkulaði
Aðferð:
- Hitið saman rjóma og After Eight í potti, hrærið vel og látið sjóða, takið af hitanum og hrærið súkkulaðinu saman við.
- Látið kólna smá áður en það er sett ofan á vanillurjómann.
Litrík og falleg hnallþóra fyllt og skreytt með ferskum berjum sem gleðja sáina.
mbl.is/Árni Sæberg