Sviptir hulunni af leyndardómnum bak við geitarostasalatið á Kastrup

Jón Mýrdal veitingamaður á Kastrup sviptir hulunni af uppskriftinni að …
Jón Mýrdal veitingamaður á Kastrup sviptir hulunni af uppskriftinni að geitarostasalatinu fræga. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Á veitingastaðnum Kastrup við Hverfisgötu í hjarta miðborgarinnar hefur heyrst að þar sé að finna eitt heitasta geitarostasalat landsins. Margir gera sér sérstaka ferð til að fá þetta salat og salatið rennur út eins og heitar lummur.

Jón Mýrdal veitingamaður á Kastrup.
Jón Mýrdal veitingamaður á Kastrup. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirrituð hafði samband við Jón Mýrdal veitingamann á Kastrup og fékk hann til að svipta hulunni af uppskriftinni að þessu dýrindis geitarostasalati svo nú geta aðdáendur salatsins prófað heima eða í sumarbústaðnum. Í salatinu eru meðal annars perur og rauðrófur sem gefa svo gott bragð og geitarosturinn er bakaður á kartöflubrauði sem er syndsamlega góð samsetning.

Ómótstæðilega girnilegt geitarostasalat.
Ómótstæðilega girnilegt geitarostasalat. mbl.is/Kristinn Magnússon

Geitarostasalat a la Kastrup

Fyrir 1-2

  • Blandað salat (má vera hvaða salat sem er)
  • Salt og sykraðar valhnetur, sjá uppskrift fyrir neðan
  • Grillaðar perur, sjá uppskrift fyrir neðan
  • Rauðrófur eldaðar, sjá uppskrift fyrir neðan
  • Vínber skorin til helminga
  • Kokteiltómatar, skornir til helminga
  • Geitarostur í sneiðum, 2 sneiðar, sjá uppskrift fyrir neðan
  • 2 sneiðar kartöflubrauð ristað

Bakaður geitarostur

  1. Ristið kartöflubrauð og skerið með hringjárni eða glasi.
  2. Setjið geitarostinn ofan á og bakið í 200°C heitum ofni í um það bil 10 mínútur eða þar til osturinn tekur á sig gylltan lit að ofan.

Dressing

  • 1 msk. eplaedik
  • 1 tsk. dijon sinnep
  • 1 tsk. hunang
  • 2 dl olía

Aðferð:

  1. Setjið edik, sinnep og hunang saman í skál og hrærið saman.
  2. Þeytið síðan olíu saman við.

Grillaðar perur

  • 1 stk. pera

Aðferð:

  1. Skerið peruna í báta og grillið/steikið á báðum hliðum, um það bil  ½  mínútu á hvorri hlið.

Rauðrófur

  • Rauðrófur eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið rauðrófuna í teninga.
  2. Sjóðið síðan í saltvatni þar til þær eru orðnar mjúkar.
  3. Takið af hellunni, hellið vatninu af og þerrið.
  4. Setjið síðan dressinguna saman við.

Valhnetur

  • 100 g valhnetur
  • 50 g sykur
  • 100 ml vatn

Aðferð:

  1. Sjóðið þar til vökvinn er að mestu farinn af.
  2. Þerrið og djúpsteikið síðan.
  3. Kælið fyrir notkun.

Samsetning salatsins

  1. Setjið blandað salat í eina skál og setjið dressingu yfir og dreifið.
  2. Setjið salatið á disk.
  3. Setjið síðan valhnetur, perur, rauðrófur, kokteiltómatar og vínber sett ofan á.
  4. Að lokum setjið þið bakaða geitarostinn á brauði ofan salatið.
  5. Berið fram og njótið með góðum drykk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert