Þá er komið að helgarbakstrinum sem er ómissandi hér á matarvefnum og nýtur mikilla vinsælda. Nú töfrar Brynja Dadda Sverrisdóttir, ástríðubakari í Móberginu í Kjós, fram dýrlega sítrónuostaköku sem er sáraeinfalt að gera og allir ráða við. Þessa þarf að gera daginn áður en það á að bera hana fram. Spurning um að drífa í því að gera þessa og eiga með sunnudagskaffinu.
Sítrónuostakaka ástríðubakarans
Botn
- 1 pk. engiferkex mulið niður
- 80 g smjör, brætt (kexið getur verið svolítið misjafnt og því má bæta við smjöri ef það er mjög þurrt)
- Blandað saman og þrýstið í mót í meðalstærð
Fylling
- 1 pk. sítrónuhlaup, leyst vel upp í einum bolla af sjóðandi vatni og síðan kælt
- 400 g rjómaostur
- 1 tsk. vanilludropar
- ½ bolli sykur
- 1 og ½ dl rjómi, þeyttur
Aðferð:
- Hrærið saman rjómaosti, sykri og vanilludropum.
- Bætið hlaupinu varlega saman við í mjórri bunu ef það er enn þá hiti í því.
- Setjið að lokum þeytta rjómann saman við.
- Kælið, þarf helst nokkra tíma í kælingu og þannig er best að gera þessa með dags fyrirvara.
- Berið fram þegar tilefni er til og njótið.