Er með kokk í huga til að elda ofan í sig og sína

Soffía Dögg Garðarsdóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni.
Soffía Dögg Garðarsdóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Ljósmynd/Kristín Valdimarsdóttir

Soffía Dögg Garðarsdóttir samfélagsmiðlari á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni og það allra besta er að hún er ekkert hrifin af því að matreiða sjálf. Hún vonast eftir því að hún geti fengið kokk eða bryta til að sjá um að elda alla réttina á vikumatseðlinum og hún geti notið með fjölskyldunni.

Soffía Dögg er mörgum kunn fyrir síðuna sína Skreytum Hús en hún hefur haldið henni úti síðan árið 2011. Síðan hefur notið mikilla vinsælda og Soffía Dögg heldur líka út í sjónvarpsþætti sem ber sama heiti. Auk þess eru starfandi nokkrir samnefndir Facebook-hópar og þar á meðal stærsti íslenski „heimilishópurinn“ þar sem 83 þúsund manns skiptast á hugmyndum og fá ráðleggingar öllu því sem tengist heimili á einn eða annan hátt.

Fæ að vinna við það sem mér þykir skemmtilegast

„Ég er svo ótrúlega lánsöm að hafa náð að gera ástríðuna mína og áhugamál að atvinnu og fæ því að vinna við það sem mér þykir skemmtilegast, sem eru forréttindi. Ég er að starfa með gríðarlega flottum fyrirtækjum, og hef verið í samstarfi með þeim öllu í fjölda ára. Auk þess hef ég unnið að þáttagerð með Skreytum Hús þættina og við erum einmitt að fara af stað með fimmtu þáttaröðina núna í haust,“ segir Soffía Dögg með bros á vör.

Stór spaghettifjölskylda

Soffía er yngst af fjórum systkinum, á tvær eldri systur og einn bróður. „Síðan naut ég þeirrar blessunar að systir mín elsta eignaðist sína dóttur þegar ég var bara 7 ára, þannig að ég á í raun eina litla aukasystur líka, svona næstum á ská.  Við erum því stór og hávær spaghettifjölskylda og okkur þykir ótrúlega gott og gaman að hittast og vera saman. Við erum alin upp á Móaflötinni í Garðabænum og eigum okkar „þjóðarrétt“ sem við erum oftast með í matinn sem heitir einfaldlega Móaflatarkjúlli. Þetta er samsetning matar sem fær flesta til þess að reka upp stór augu og helst bara hneykslast mikið, en í mínum huga er enginn matur betri en þetta. Um er að ræða ofnbakaða kjúklinga, brúnaðar kartöflur, sveppasósu og það mikilvægasta fyrir spaghettifjölskyldur, spaghetti. Þessi dásemdar máltíð er í mínum huga eins og hlýtt faðmlag og er í raun minn huggunnar matur. Nýliðar í fjölskyldunni fetta upp á nefið þegar þetta er borið á borð fyrir þá í fyrsta sinn, en svo kemur fyrsta smakk og eftir það er ekki aftur snúið. Þetta er best,“ segir Soffía Dögg og hlær. Í dag býr Soffía á Álftanesi ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum og hundunum. „Við vorum einmitt að fá nýjan hvolp í fjölskylduna núna í júní og erum í skýjunum með nýja fjölskyldumeðliminn.“  

Nýr hvolpur bætist í fjölskylduna í júní síðastliðinn og mikil …
Nýr hvolpur bætist í fjölskylduna í júní síðastliðinn og mikil hamingja er með stækkun fjölskyldunnar. Ljósmynd/Kristín Valdimarsdóttir

Alls ekkert skemmtilegt að vera í eldhúsinu

Eldhúsi er ekki uppáhaldsstaðurinn hennar Soffíu Daggar almennt. „Ég verð að viðurkenna að mér finnst bara alls ekkert skemmtilegt að vera í eldhúsinu og að matreiða almennt. En hins vegar þykir mér skemmtilegt að skipuleggja veislur, að leggja fallega á borð og almennt að gera góða vinnuaðstöðu og jafnframt fallegt í eldhúsinu. Á mínu æskuheimili var það líka pabbi sem eldaði en mamma bakaði og gerði eggjabrauð og slíkt, þannig að ég hélt bara almennt væri þetta í verkahring pabbanna að elda. Síðan kynntist ég æskuástinni, eiginmanni mínum og komst að því að svo var bara alls ekki. En við hjónin vinnum þetta í sameiningu og nýlega prufuðum við að kaupa svona tilbúna matarpakka, þar sem þú færð öll hráefnin tilbúin til matreiðslu. Þá datt húsbóndinn í gírinn og það elska ég.  Ef ég þarf ekki að elda er ég ánægð og enn betra að þurfa ekki að hugsa um hvað er í matinn,“ segir Soffía Dögg glettnislega.

„Þannig að í þessum vikumatseðli er ég með kokk eða bryta í huga sem myndi nenna að elda þetta allt saman ofan í mig og mína,“ segir Soffía Dögg og brosir hringinn.

Mánudagur – Spaghetti bolognese að hætti Ítala

„Mínir krakkar, sérstaklega dóttirin, elska spaghetti bolognese og er þessi réttur því nánast einu sinni í viku. En við þurfum þó alltaf að gera smá auka ráðstafanir þar sem dóttirin er grænmetisæta.“

Þriðjudagur - Mexíkósúpa

„Það er alltaf smá haustfílingur í súpum, en mexíkósúpa fær að vera undantekning, hún er bara alltaf góð.“

Miðvikudagur – Strangheiðarlegt pylsupasta

„Pasta er alltaf vinsælt hjá mínum krökkum og þar sem sonurinn hefur elskað pylsur frá því að hann var kríli þá myndi þetta slá í gegn.“

Fimmtudagur -Bao bollur með „pulled pork

Pulled pork er alltaf gott og í raun frekar einfaldur matur.“

Föstudagur – Kjúklingasalat með sætum kartöflum

„Sjálf elska ég salöt og gæti borðað á hverjum degi. Svo er bara eitthvað ómótstæðilegt við sætar kartöflur, þær eru bara góðar með öllu.“

Laugardagur – Uppáhaldshamborgari Kristínar andsliðskokks

„Eitthvað sem allir elska, hamborgarar eru auðvitað klassík, sérstaklega á sumrin.“

Sunnudagur – Lambafille með rjómalagðri sveppasósu

„Skellum okkur bara beint í klassíkina, það er eitthvað kósí við lamb á sunnudegi, helst með stórfjölskyldunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert